Össur Skarphéðinsson fyrrverandi ráðherra segir að það þurfi að minna Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins á að Katrín Jakobsdóttir hafi setið í ríkisstjórninni sem sá til þess að vextir lækkuðu hraðar og verðbólga hjaðnaði örar en nokkru sinni fyrr í lýðveldissögunni. Bjarni sagði fyrr í dag að ef Vinstri græn, Samfylkingin og Píratar kæmust í ríkisstjórn yrðu gerðar róttækar breytingar til vinstri, skattar yrðu hækkaðir, verðbólgan myndi aukast sem leiðir til hærri vaxta.
Sjá einnig: Bjarni skýtur fast á Vinstri græna: Vinstri róttæk breyting í kortunum
Össur segir í færslu á Fésbók að hann sé kannski ekki rétti maðurinn til að bera skjöld fyrir Katrínu:
Í tilefni köpuryrða Bjarna Benediktssonar hér að neðan má hins vegar minna hann á að Katrín Jakobsdóttir sat í ríkisstjórn sem sá til þess að vextir lækkuðu hraðar og verðbólga hjaðnaði örar en nokkru sinni fyrr í lýðveldissögunni,
segir Össur og bætir við:
Hún var ein af þeim sem mokaði flórinn eftir langvarandi stjórn Sjálftæðisflokksins á fjármálum ríkisins. Sjálfstæðisflokkurinn er óvart sá flokkur sem síst er fallinn til að skapa stöðugleika. Síðustu tíu árin hafa allar ríkisstjórnin sem hann hefur tekið þátt í fallið – og í öllum tilvikum hefur flokkurinn átt meiri eða minni þátt í atburðarásinni sem leiddi til stjórnarslita. Sjálfur er Bjarni nýkominn úr stystu meirihlutastjórn Íslandssögunnar. Hvernig dettur nokkrum heilvita manni í hug að það gangi að bjóða upp á Sjálfstæðisflokkinn sem kjölfestu? – Tell me another one, please.