Rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson leiðir framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og stígur nú sín fyrstu skref í stjórnmálum. Hann gerir grein fyrir því hvað ýtti honum út í þetta á Facebook-síðu sinni.
Hvað er maður að álpast í framboð, tæplega sextugur viðvaningur í pólitík?,
spyr hann sjálfan sig og svarar að bragði:
„Það var komið að máli við mig. Svo einfalt er það. Og mér finnst tímarnir vera þannig að maður eigi að slá til, þyki fólki ástæða til að ætla að maður geti gert gagn; sambland af skyldurækni og forvitni, soldið eins og þegar maður byrjar á bók um efni sem maður veit lítið um.
Samfylkingin varð sjálfkrafa fyrir valinu enda hefur hann „stutt hana frá því áður en hún varð til, þó að ég hafi ekki starfað í flokknum.“ Í Samfylkingunni segir Guðmundur Andri fjóra flokka hafa runnið saman í eina hreyfingu en allir störfuðu þeir „í anda jafnaðarstefnunnar, sem er lífsskoðun sem ég aðhyllist.“
Guðmundur Andri segist finna að hann hefur gott fólk með sér og fagnar því sérstaklega að hafa Margréti Tryggvadóttur sér við hlið enda hafi þau starfað saman í bókaútgáfu og þekkjast frá fornu fari. „Þetta verður gaman.“