Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og áður formaður Samfylkingarinnar, harmar að Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingflokksformaður Pírata, hverfi nú af þingi.
„Mér fannst hún satt að segja efni í meiriháttar þingskörung – og bjóst við að sjá hana í ráðherrasæti fyrr en seinna. Ég var stundum hálfhræddur við hana einsog margir með slaka meðalgreind eru gagnvart gáfuðu fólki,“
skrifar Össur á Facebook um Ástu Guðrúnu sem hafnaði í þriðja sæti í prófkjöri Pírata í Suðvesturkjördæmi en ákvað að afþakka það:
Hún var leiðtogaefni en reis of hratt fyrir smekk einhverra í tríumvírati valdsins innan Píratanna. Í hreyfingu með flatan strúktúr eru ósýnilegir þræðir hins falda valds merkilegt rannsóknarefni. Þar er af ýmsu að taka innan Pírata. Það vald birtist þegar Ástu Guðrúnu var fleygt kyrfilega úr embætti þingflokksformanns fyrr á árinu.
Össur, sem er vægast sagt gamalreyndur í stjórnmálum, segir að það hafi ekki komið mjög á óvart að Ásta Guðrún næði ekki ofar í prófkjörinu en segir að með brotthvarfi hennar fækki vitibornum á Alþingi um einn:
Mér kom því ekkert sérstaklega á óvart þegar Píratar dömpuðu Ástu Guðrúnu „með lýðræðislegum hætti“ í liðinni viku. Þar með er líklegt að fækki um einn í hópi viti borinna við Austurvöll.