Sema Erla Serdar formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi verður ekki í framboði fyrir Samfylkinguna í komandi kosningum. Sema Erla, sem var áður formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi, skipaði 3.sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi í kosningunum 2016.
Sema Erla segir á Fésbók að hún hafi fengið fullt af fyrirspurnum hvort hún verði á lista í ár en hún hafi tekið þá ákvörðun að vera ekki á lista Samfylkingarinnar í ár:
Að baki þeirrar ákvörðunar liggja nokkrar ástæður en sú sem mestu máli skiptir er að ég er á kafi í nokkrum verkefnum sem ég tel vera mjög mikilvæg og ég er ekki tilbúin til þess að segja skilið við enda er þeim ekki lokið. Má þar nefna baráttuna fyrir réttindum, réttlæti og mannúð fyrir flóttafólk og hælisleitendur sem og baráttuna fyrir mannréttindum og gegn fordómum og hatri í íslensku samfélagi sem og baráttuna fyrir hagsmunum barnanna okkar og ungmenna,
segir Sema Erla. Hún útilokar ekki að snúa aftur í stjórnmálin síðar:
Ég tel það ekki vera baráttunni til framdráttar að vera á lista stjórnmálaflokks. Það koma kosningar eftir þessar og kannski leiðir hjartað mann aftur í þá átt einhvern tímann. Það þarf hins vegar að vinna að þessum málefnum á breiðum grundvelli og ég tel krafta mína nýtast best þar sem þeir eru núna.