Flokkur fólksins, með stofnandann Ingu Sæland í broddi fylkingar, kynnti oddvita flokksins á framboðslistum í öllum kjördæmum á haustþingi sínu í Háskólabíói um helgina. Inga sjálf leiðir listann í Reykjavíkurkjördæmi suður og er eina konan í oddvitasæti. Þeir karlar sem leiða lista í öðrum kjördæmum eru þó greinilega undirgefnir Ingu og telja sér hollast að hlýða Ingu í einu og öllu.
Sunnlendingurinn séra Halldór Gunnarsson ákvað að taka oddvitasætið í Norðausturkjördæmi samkvæmt beiðni Ingu. Hann gerði grein fyrir ákvörðun sinni á haustþinginu og sagðist ekki hafa átt von á því að hann myndi fara af Suðurlandi og taka sæti fyrir norðan:
En úr því að við eigum formann eins og Ingu Sæland þá er það okkar að hlýða og fylgja henni og skilja það að í henni höfum við það afl getur gefið okkur tækifæri til að marka spor í Íslandssögunni…
Fundarstjórinn, Guðmundur Borgþórsson, tók undir með Halldóri og sagði:
Honum finnst hann þurfa að hlýða Ingu. Ég held að það sé rétt hjá honum. Ég held að við eigum að hlýða henni.
Oddvitar Flokks fólksins ásamt Ingu og Halldór eru þeir Ólafur Ísleifsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Karl Gauti Hjaltason og Magnús Þór Hafsteinsson.