Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, greiddi of mikla skatta vegna félagsins Wintris á árunum 2011 til 2015. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar sem greint er frá í Fréttablaðinu í dag.Anna Sigurlaug fór á leit við ríkisskattstjóra í maí í fyrra að framtöl hennar yrðu leiðrétt og birti yfirskattanefnd úrskurð sinn fyrir helgi.
Sigmundur Davíð kallar þetta málalok í grein í Fréttablaðinu í dag, segir hann að hér á landi hafi umræðan verði kolröng og ruglingsleg, Anna hafi greitt of mikinn skatt á Íslandi vegna félagsins og hafi nú fengið endurgreitt. Sigmundur Davíð segir svo:
Ef til vill ætti maður að þakka sjónvarpsmönnum fyrir að benda á að eiginkona mín geti sparað sér skattgreiðslur. Mér hefði þó þótt heiðarlegra að sú ábending bærist með öðrum hætti en raun varð. Ef heiðarleg vinnubrögð hefðu verið viðhöfð og ég eða kona mín einfaldlega verið spurð út í félagið hefði verið hægt að veita allar upplýsingar eins og raunar var gert.
Segir Sigmundur að öllu skynsömu fólki ætti að vera ljóst að þótt það hefði ef til vill þjónað hans pólitískum hagsmunum að segja að hann hefði barist fyrir lagabreytingum sem myndu ganga á hagsmuni eiginkonu hans sem kröfuhafa þá hefði það ekki hjálpað í baráttunni. Niðurstaðan sé sigur:
Niðurstaðan varðandi eiginkonu mína er því sú að hún hefur alltaf leitast við að leggja sitt af mörkum til samfélagsins (samanlagðar skattgreiðslur nema á fimmta hundrað milljónum á núvirði), hún hefur ekki nýtt þau tækifæri sem gáfust til að skattleggja eignir sínar í lágskattaríkjum, hún tapaði stórum hluta eigna sinna í bankahruninu og meiru til með lagabreytingum eftir hrun.