fbpx
Mánudagur 18.ágúst 2025
Eyjan

Ótrúleg ævi Haraldar: Barðist gegn Mugabe og særðist í sprengjuárás – „Mamma lá hágrátandi undir eldhúsborði“

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 27. nóvember 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Árið 1974 var ólgan orðin svo mikil að ferðamannastraumurinn var hættur og hann hafði ekkert að gera sem hótelstjóri. Einn daginn fáum við skeyti sem á stóð: Genginn í herinn, Halli, bless. Náttúrulega leið yfir mömmu en þetta kom mér ekkert á óvart.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í athyglisverðu viðtali í helgarblaði DV við Huldu Sigurðardóttur, systur Haraldar Páls Sigurðssonar sem barðist með stjórnarher Ian Smith í Ródesíu fyrir margt löngu.

Umbrotatímar
Harold MacMillan, forsætisráðherra Bretlands, lýsti því yfir í ræðu árið 1960 að Bretar hygðust veita nýlendum sínum í Afríku sjálfstæði gegn því að kjörnar yrðu lýðræðislegar meirihlutastjórnir í hinum nýstofnuðu ríkjum. Þetta vakti óhug hjá hvíta minnihlutanum í nýlendunni Suður-Ródesíu þar sem Ian Smith var landstjóri.

Árið 1965 lýsti Smith einhliða yfir sjálfstæði frá Stóra-Bretlandi og stofnað var ríkið Ródesía. Við tók fimmtán ára styrjöld um völdin í landinu, en ekki við Breta heldur skæruliðahreyfingu innfæddra, ZANU. Öll þessi ár var Ródesíu stýrt af hvíta minnihlutanum og var ríkið fordæmt af alþjóðasamfélaginu fyrir kynþáttaaðskilnað og mátti þola viðskiptabönn líkt og Suður-Afríka.

Fyrstu tíu ár stríðs stjórnarhersins við ZANU voru frekar tíðindalítil, aðeins smáskærur hér og þar. Þá var Robert Mugabe, einn af foringjum ZANU, í fangelsi. En árið 1974 jókst umfang stríðsins og til að friðþægja skæruliðana var nokkrum leiðtogum þeirra, þar á meðal Mugabe, sleppt lausum. Mugabe flúði austur yfir landamærin til Mósambík en þaðan og frá Sambíu herjuðu ZANU-liðar á Ródesíu.

Kengruglaðir og lifðu fyrir spennuna
Nokkrir Íslendingar bjuggu í Ródesíu á umbrotatímunum þegar Mugabe var að komast til valda og einn þeirra, Haraldur Páll Sigurðsson, barðist gegn honum með stjórnarher Ian Smith. Haraldur fæddist árið 1949 á Akureyri, elsta barn hjónanna Sigurðar V. Jónssonar verkamanns og Maríu Sigurðardóttur húsmóður. Haraldur átti þrjár yngri systur og sú elsta af þeim, Hulda, var honum mjög náin.

Haraldur gekkst undir þriggja mánaða grunnþjálfun í höfuðborginni Salisbury (nú Harare) og síðar sérþjálfun í fallhlífarstökki og hjúkrun. Hann varð strax undirliðþjálfi að lokinni þjálfun og var sendur til lítils bæjar í norðausturhluta landsins, við landamæri Mósambík. Herdeildin sem hann starfaði innan var fjölþjóðleg. Þar voru málaliðar frá Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Suður-Afríku og einnig Bandaríkjamenn sem komu beint frá Víetnam. Í viðtali við Mannlíf árið 1988 segir Haraldur: „Það var nú mikið af ævintýramönnum, mörgum kengrugluðum, sem lifðu aðeins fyrir spennuna, en svo var meirihlutinn venjulegir menn eins og ég.“

Fjölskylda myrt á hrottafenginn hátt
Í viðtalinu við Mannlíf lýsir Haraldur sjálfur atviki sem snerti hann djúpt. „Þetta gerðist uppi í einu fjallahéraðinu, þar sem mikið var af stórum búgörðum. Við vorum kallaðir út eina nóttina og þá hafði verið gerð árás á búgarð, sem á bjó hvít fjölskylda. Þegar við komum þangað var enginn lifandi. Ekki nokkur maður. Það var greinilegt að þau höfðu veitt einhverja mótspyrnu því bændurnir voru yfirleitt vopnaðir, en bóndinn á þessum bæ hafði greinilega orðið skotfæralaus. Við fundum þau öll inni í húsinu, hjónin og tvö börn. Þau höfðu öll verið skotin og hafði greinilega verið misþyrmt hrottalega áður en þau voru drepin. Það var augljóst að börnin höfðu verið pynduð fyrst. Hjónin voru bundin saman uppi í rúmi og börnin lágu á gólfinu. Þau voru miklu verr útleikin en foreldrarnir.“

Kærastan skotin niður
Haraldur var í stríðinu í sex ár og vann sig upp í stöðu liðþjálfa. Hulda segir að hann hafi drepið menn þarna úti en hann hafi ekki vitað hversu marga, því margar orrusturnar áttu sér stað í myrkri. Eftir að hafa séð grimmdarverkin hætti samviskan að hafa áhrif á hann. En annar atburður hafði líka mikið að segja. Hulda segir: „Halli átti kærustu út í Ródesíu, frá Suður-Afríku. Hún var á leiðinni til hans með flugvél en skæruliðarnir skutu hana niður. Það var ofboðsleg reiði í honum eftir þetta.“ Heimsmynd hans brenglaðist og hann fór að setja allt svart fólk undir sama hatt.

Sannfærð um að hann yrði drepinn
Á meðan allt þetta var að gerast var fjölskyldan heima milli vonar og ótta, en Haraldur var staðráðinn í að halda hermennskunni áfram. „Það þýddi ekkert að reyna að fá hann til baka aftur. Ég sendi honum bréf þar sem ég sagði honum að koma sér heim í hvelli því það væri allt orðið brjálað þarna. Maður las um ástandið í blöðunum og heyrði í útvarpi. Ég var sannfærð um að hann yrði drepinn. En hann fór sínu fram. Þetta var skelfilegur tími fyrir okkur fjölskylduna og sérstaklega foreldra okkar. Mamma þorði varla að taka við skeytum.“

Slasaðist illa
Undir lok stríðsins slasaðist Haraldur illa í sprengjuárás á bílalest. Hann hentist í burtu, fékk sprengjubrot í mjöðmina og áverka á höfði. Í kjölfarið var hann færður á spítala þar sem við tók löng spítalalega. „Við fengum skeyti frá hernum um að hann hefði slasast mikið. Ég man að ég kom heim til foreldra minna og mamma lá hágrátandi undir eldhúsborði. Þau gátu ekki lesið skeytið.“

Haraldur yfirgaf landið eftir þetta og fór til Suður-Afríku og þaðan til Íslands. Að sögn Huldu var allt líf Haraldar litað eftir þetta. „Þetta var hrikalegt. Hann var algjört flak, bæði andlega og líkamlega. Hann vissi ekkert hvað hann vildi gera.“

Haraldur lést á Þorláksmessu árið 2008 á heimili sínu úr hjartaáfalli, 59 ára gamall.

Nánar má lesa um málið í helgarblaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“