fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Haraldur barðist gegn Mugabe og arftaka hans

Unnustan skotin niður – Særðist í sprengjuárás – Fylgdi honum út lífið

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 26. nóvember 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1960 lýsti Harold MacMillan, forsætisráðherra Bretlands því yfir í ræðu að Bretar hygðust veita nýlendum sínum í Afríku sjálfstæði gegn því að kjörnar yrðu lýðræðislegar meirihlutastjórnir í hinum nýstofnuðu ríkjum. Þetta vakti óhug hjá hvíta minnihlutanum í nýlendunni Suður-Ródesíu þar sem Ian Smith var landstjóri. Árið 1965 lýsti Smith einhliða yfir sjálfstæði frá Stóra-Bretlandi og stofnað var ríkið Ródesía. Við tók fimmtán ára styrjöld um völdin í landinu, en ekki við Breta heldur skæruliðahreyfingu innfæddra, ZANU. Öll þessi ár var Ródesíu stýrt af hvíta minnihlutanum og var ríkið fordæmt af alþjóðasamfélaginu fyrir kynþáttaaðskilnað og mátti þola viðskiptabönn líkt og Suður-Afríka.

Fyrstu tíu ár stríðs stjórnarhersins við ZANU voru frekar tíðindalítil, aðeins smáskærur hér og þar. Þá var Robert Mugabe, einn af foringjum ZANU, í fangelsi. En árið 1974 jókst umfang stríðsins og til að friðþægja skæruliðana var nokkrum leiðtogum þeirra, þar á meðal Mugabe, sleppt lausum. Mugabe flúði austur yfir landamærin til Mósambík en þaðan og frá Sambíu herjuðu ZANU-liðar á Ródesíu.

Að sleppa Mugabe og félögum snerist í höndunum á Smith. Mugabe tók við stjórn hreyfingarinnar og hernaðurinn jókst stöðugt. ZANU var fyrst og fremst þjóðernishreyfing en naut stuðnings frá ríkjum kommúnista víðs vegar um heiminn; Sovétríkjanna, Kína, Víetnam, Kúbu og fleiri ríkja. Grimmilegri borgarastyrjöld lauk loks með friðarviðræðum í London árið 1979 og opnum kosningum ári seinna þar sem ZANU-flokkurinn sigraði og valdatíð Mugabe sem forseta landsins hófst.

Stýrði árásum ZANU frá Mósambík.
Robert Mugabe Stýrði árásum ZANU frá Mósambík.

Landið var endurnefnd Simbabve og Mugabe var fagnað sem frelsishetju bæði innan- og utanlands. Upphaflega leit út fyrir að stjórn hans myndi sættast við hvíta minnihlutann en eftir sprengjuárás á höfuðstöðvar ZANU-flokksins undir lok árs 1981 breyttist tónninn. Mugabe kenndi hvítum um árásina og hóf að beita sér kerfisbundið gegn þeim, svipta þá eignum sínum og flæma þá úr landi. Árið 1975 voru um 300 þúsund hvítir í landinu en nú eru þeir um 30 þúsund.

Genginn í herinn, Halli, bless

Nokkrir Íslendingar bjuggu í Ródesíu á umbrotatímunum þegar Mugabe var að komast til valda og einn þeirra, Haraldur Páll Sigurðsson, barðist gegn honum með stjórnarher Ian Smith. Haraldur fæddist árið 1949 á Akureyri, elsta barn hjónanna Sigurðar V. Jónssonar verkamanns og Maríu Sigurðardóttur húsmóður. Haraldur átti þrjár yngri systur og sú elsta af þeim, Hulda, var honum mjög náin. Hulda segir að seinni heimsstyrjöldin hafi haft mikil áhrif á föður þeirra sem hafi síðan smitast í Harald. „Pabbi var heltekinn af stríðinu og alltaf í Bretanum á Akureyri. Harald langaði til að verða hermaður. Hann sótti um í norsku og dönsku herjunum en komst ekki inn. En hann sagði mér aldrei af hverju.“

Mynd úr Dagblaðinu, 11. mars 1976.
Hótelstjóri við Viktoríufossa Mynd úr Dagblaðinu, 11. mars 1976.

En stríðið var ekki eina áhugamál Haraldar. Snemma fékk hann áhuga á hótel- og veitingamennsku og ákvað að læra til þjóns árið 1967. Hann vann bæði á farþegaskipinu Gullfossi og á veitingastaðnum Naustinu við Vesturgötu. En hann var eirðarlaus og beið eftir rétta tækifærinu til að komast utan í einhvers konar ævintýri. Tækifærið bauðst eftir að hann kynntist ferðamanni frá Ródesíu á Naustinu sem sagði honum frá landinu. Þá voru Ródesíumenn að reyna að laða að innflytjendur til að byggja upp efnahag landsins. Haraldur ákvað að slá til og flutti út ásamt Rögnu, eiginkonu sinni til nokkurra ára, en þau skildu skömmu eftir flutningana. Ragna flutti heim en Haraldur gerðist ródesískur ríkisborgari.

Haraldur starfaði á tveimur hótelum áður en hann fékk hótelstjórastöðu á fimm stjörnu hóteli við Viktoríufossa sem var vinsæll ferðamannastaður hjá Bretum. Þegar hann kom til landsins var efnahagurinn í blóma og skærur ekki miklar. En þær jukust dag frá degi og árásir fóru að beinast að ferðamönnum. Hulda segir: „Árið 1974 var ólgan orðin svo mikil að ferðamannastraumurinn var hættur og hann hafði ekkert að gera sem hótelstjóri. Einn daginn fáum við skeyti sem á stóð: Genginn í herinn, Halli, bless. Náttúrulega leið yfir mömmu en þetta kom mér ekkert á óvart.“

Sváfu með riffla

Haraldur gekkst undir þriggja mánaða grunnþjálfun í höfuðborginni Salisbury (nú Harare) og síðar sérþjálfun í fallhlífarstökki og hjúkrun. Hann varð strax undirliðþjálfi að lokinni þjálfun og var sendur til lítils bæjar í norðausturhluta landsins, við landamæri Mósambík. Herdeildin sem hann starfaði innan var fjölþjóðleg. Þar voru málaliðar frá Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Suður-Afríku og einnig Bandaríkjamenn sem komu beint frá Víetnam. Í viðtali við Mannlíf árið 1988 segir Haraldur: „Það var nú mikið af ævintýramönnum, mörgum kengrugluðum, sem lifðu aðeins fyrir spennuna, en svo var meirihlutinn venjulegir menn eins og ég.“

ZANU-samtökin voru með bækistöðvar í Mósambík og beittu þeirri aðferð að senda fámenna hópa skæruliða yfir landamærin til þess að ráðast á búgarða og lítil þorp og drepa sem flesta sem þeir töldu óvinveitta, bæði hvíta og svarta. Hlutverk herdeildarinnar sem Haraldur var í var að uppræta slíka hópa. Þetta var léttvopnuð sveit, um 40 til 50 menn, sem var sífellt á ferðinni og lenti í átökum á hverjum degi, stundum oft á dag.

Haraldur sagði flutningana og næturnar hafa verið erfiðastar. „Það var djöfullegt þegar gerð var fyrirsát á bílalestir, því maður er eiginlega bundinn inni í bíl og berskjaldaður.“ Á nóttunni sváfu þeir í holum sem þeir grófu haldandi á riffli í annarri hendinni. Árásir voru tíðar um nætur, gerðar úr fjarlægð með sprengjuvörpum eða vélbyssum. Eina nóttina misstu þeir þrettán menn.

Börnin verr útleikin en foreldrarnir

Hulda fékk regluleg sendibréf frá Haraldi á þessum tíma. Hún segir: „Þeir fóru í leiðangra yfir landamærin til Mósambík og þegar þeir komu til baka skelltu þeir í sig róandi lyfjum. Þessi bréf voru svo óhugnanleg. Hann lýsti því þegar sveitin hans kom inn í þorp og þeir fundu fólk sem var búið að brytja niður. Það hékk á fótunum, hauslaust.“ Skæruliðarnir fóru iðulega inn í lítil þorp smöluðu fólki í strákofa og báru eld að. Þeir sem hlupu út voru skotnir um leið.

„Þessi bréf voru svo óhugnanleg. Hann lýsti því þegar sveitin hans kom inn í þorp og þeir fundu fólk sem var búið að brytja niður. Það hékk á fótunum, hauslaust“

Í viðtalinu við Mannlíf lýsir Haraldur sjálfur atviki sem snerti hann djúpt. „Þetta gerðist uppi í einu fjallahéraðinu, þar sem mikið var af stórum búgörðum. Við vorum kallaðir út eina nóttina og þá hafði verið gerð árás á búgarð, sem á bjó hvít fjölskylda. Þegar við komum þangað var enginn lifandi. Ekki nokkur maður. Það var greinilegt að þau höfðu veitt einhverja mótspyrnu því bændurnir voru yfirleitt vopnaðir, en bóndinn á þessum bæ hafði greinilega orðið skotfæralaus. Við fundum þau öll inni í húsinu, hjónin og tvö börn. Þau höfðu öll verið skotin og hafði greinilega verið misþyrmt hrottalega áður en þau voru drepin. Það var augljóst að börnin höfðu verið pynduð fyrst. Hjónin voru bundin saman uppi í rúmi og börnin lágu á gólfinu. Þau voru miklu verr útleikin en foreldrarnir.“

Særðist í sprengjuárás

Haraldur var í stríðinu í sex ár og vann sig upp í stöðu liðþjálfa. Hulda segir að hann hafi drepið menn þarna úti en hann hafi ekki vitað hversu marga, því margar orrusturnar áttu sér stað í myrkri. Eftir að hafa séð grimmdarverkin hætti samviskan að hafa áhrif á hann. En annar atburður hafði líka mikið að segja. Hulda segir: „Halli átti kærustu út í Ródesíu, frá Suður-Afríku. Hún var á leiðinni til hans með flugvél en skæruliðarnir skutu hana niður. Það var ofboðsleg reiði í honum eftir þetta.“ Heimsmynd hans brenglaðist og hann fór að setja allt svart fólk undir sama hatt.

Á meðan allt þetta var að gerast var fjölskyldan heima milli vonar og ótta, en Haraldur var staðráðinn í að halda hermennskunni áfram. „Það þýddi ekkert að reyna að fá hann til baka aftur. Ég sendi honum bréf þar sem ég sagði honum að koma sér heim í hvelli því það væri allt orðið brjálað þarna. Maður las um ástandið í blöðunum og heyrði í útvarpi. Ég var sannfærð um að hann yrði drepinn. En hann fór sínu fram. Þetta var skelfilegur tími fyrir okkur fjölskylduna og sérstaklega foreldra okkar. Mamma þorði varla að taka við skeytum.“

„Ég kom heim til foreldra minna og mamma lá hágrátandi undir eldhúsborði“

Undir lok stríðsins slasaðist Haraldur illa í sprengjuárás á bílalest. Hann hentist í burtu, fékk sprengjubrot í mjöðmina og áverka á höfði. Í kjölfarið var hann færður á spítala þar sem við tók löng spítalalega. „Við fengum skeyti frá hernum um að hann hefði slasast mikið. Ég man að ég kom heim til foreldra minna og mamma lá hágrátandi undir eldhúsborði. Þau gátu ekki lesið skeytið.“

Eftir þetta gat hann ekki sinnt hermennsku og flutti inn til tveggja Íslendinga sem bjuggu í landinu, Magnúsar Marteinssonar og Þorbjargar Möller. Hann var þá mjög illa haldinn, bæði andlega og líkamlega, og háður bæði verkjalyfjum og áfengi. Þá var Mugabe tekinn við völdum í landinu og var að leita uppi þá hermenn sem barist höfðu gegn honum. Haraldur var skilríkjalaus og í felum hjá hjónunum sem ákváðu að smygla honum úr landi suður til Jóhannesarborgar í Suður-Afríku. Þau útveguðu honum bráðabirgðapassa og hann náði flugi heim til Íslands með eina ferðatösku með búningnum hans. Skömmu síðar flúðu Magnús og Þorbjörg einnig úr landi.

Martraðir og sjálfsvígshugsanir

Þegar Haraldur kom heim til Íslands flutti hann inni til Huldu sem segir þann tíma hafa verið mjög erfiðan. „Þetta var hrikalegt. Hann var algjört flak, bæði andlega og líkamlega. Hann vissi ekkert hvað hann vildi gera.“ Hann kjagaði vegna áverkanna á mjöðmunum og gekkst undir skurðaðgerð sem lagaði það lítillega. Þá drakk hann mikið og gat ekki losað sig við lyfjafíknina.

Erfiðust var hins vegar áfallastreituröskunin sem einkennir marga fyrrverandi hermenn. „Á þessum tíma var ekkert hugsað út í svona hluti. Hvað þá að fá Íslending sem hafði barist í svona stríði. Hann fékk enga aðstoð. Við fórum upp á geðdeild en það var ekkert gert fyrir hann. Engin sálfræðiaðstoð eða neitt.“ Haraldur fékk lyf hjá geðlækni sem gerðu þó lítið til að hjálpa honum. Hann hrjáðist af sífelldum martröðum og íhugaði sjálfsvíg um tíma. Í viðtalinu við Mannlíf segir hann: „Enginn skildi það sem ég var að tala um. Ég var dottinn úr sambandi við allt hér heima.“

Til skamms tíma fór hann á sjóinn en sneri sér svo aftur að því sem hann gerði best, hótel- og veitingarekstri. Um tíma rak hann Hótel Akureyri og skemmtistaðinn Lautina sem var þar í kjallaranum. Seinna flutti hann til Dalvíkur þar sem hann rak veitingastaðinn Sæluhúsið. Síðustu árin vann hann hér og þar í Reykjavík en þá var heilsu hans farið að hraka mjög mikið.

„Hann var alltaf á leiðinni út aftur og vildi halda hermennskunni áfram.“
Hótel Akureyri „Hann var alltaf á leiðinni út aftur og vildi halda hermennskunni áfram.“

Hulda segir: „Hann var alltaf á leiðinni út aftur og vildi halda hermennskunni áfram en hann hefði aldrei getað það líkamlega. Það vildi hann hins vegar ekki viðurkenna.“ Haraldur komst í samband við ýmsa hópa málaliða og horfði mikið til frönsku útlendingahersveitarinnar. „Mér leist ekkert á þetta því það eru aðallega glæpamenn sem gerast málaliðar. En það var alveg sama hvað ég sagði við hann, hann hlustaði ekki.“ Einnig vildi hann flytja aftur út til Simbabve en hann hataðist mjög út í Mugabe og blótaði honum við öll tækifæri.

Haraldur var mikill djassáhugamaður, spilaði á saxófón og trommur, og kom fram á tónleikum. Hann var einnig mikill áhugamaður um matargerð og veisluhöld. En þrátt fyrir það var hann mikill einfari alla tíð eftir að hann kom heim frá Afríku. Hann talaði ekki mikið um reynslu sína úr stríðinu við annað fólk. „Hann skammaðist sín ekki fyrir þetta en hann var fúll yfir því að hafa ekki komist aftur út. Honum fannst hann ekki hafa lokið sínu verki,“ segir Hulda. Haraldur lést á Þorláksmessu árið 2008 á heimili sínu úr hjartaáfalli, 59 ára gamall.

Tímamót í Simbabve

Valdatími hins 93 ára gamla Roberts Mugabe er nú á enda. Eftir 37 ár af efnahagshnignun, hungursneyð, ofríki, ofsóknum og mannréttindabrotum fengu þegnarnir loksins nóg og herinn svaraði með því að taka völdin í landinu. Vendipunkturinn varð þegar Emmerson Mnangagwa varaforseti var rekinn snemma í nóvember að undirlagi Grace Mugabe, eiginkonu Roberts. Herinn tók þá völdin og setti Robert Mugabe í stofufangelsi. Mánudaginn 21. nóvember sagði Mugabe af sér embætti og búist er við að Mnangagwa taki við stjórnartaumunum í landinu föstudaginn 24. nóvember.

Verkefni Mnangagwa eru ærin og margir telja hann of tengdan Mugabe til að geta snúið ástandi landsins við. Hann barðist í stríðinu líkt og Mugabe og saman stýrðu þeir hernaðaraðgerðum frá Mósambík. Hernaðaraðgerðum sem Haraldur Páll og félagar hans í stjórnarher Ian Smith þurftu að takast á við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar