Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra varar Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri græn við samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn þar sem upp muni koma hneykslismál. Segir Björt í færslu á Fésbók að hún hafi hugsað það sama og Vinstri græn fyrir ári síðan þegar Björt framtíð ræddi við Sjálfstæðisflokkinn um ríkisstjórnarsamstarf, á blaði hafi Björt framtíð verið sammála Sjálfstæðisflokknum í mörgum atriðum og viljað axla ábyrgð með því að fara í ríkisstjórn:
En svo er það það sem að ekki er skrifað í neinar stefnur en allir auðvitað vita. Það mun eitthvað koma uppá. Það lætur einhver eins og andskotinn. Það verða hneykslismál,
segir Björt. Hún segist hafa verið í kapphlaupi við tímann á síðasta kjörtímabili þar sem hún hafi verið viss af gefinni reynslu að eitthvað mannlegt myndi koma upp á og að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki bregðast rétt við:
Og það var það sem gerðist. Auðvitað var ekki bara ákveðið sí svona á fundi heima hjá Óttarri að slíta ríkisstjórn. Það höfðum við tvö séð fyrir strax fyrr um daginn þegar fréttir í fjölmiðlum bárust. Ég hringdi og bað fólk hjá samstarfsflokknum um að bregðast við. En það var búið að ákveða að gera það ekki og þar við sat. Sjálfstæðisflokkurinn vissi það fyrir umrætt afdrifaríkt rafrænt kosningakvöld hvað myndi gerast. Skeytingaleysi og leyndarhyggja gagnvart ömurlegri stjórnsýslu vegna kynferðisglæpa myndi aldrei líðast hjá Bjartri Framtíð. Svo einfalt var það í huga okkar- en svo flókið fyrir mörgum öðrum.
Björt segist ekki vera pólitískt sammála Vinstri grænum fyrir fimmaur:
En það er þarna taug til Katrínar og annarra kvenna í VG sem ég hef unnið með á þingi. Ég mun auðvitað taka rimmuna við þær og þessa væntu ríkisstjórn og það verður fínt fyrir mig og Bjarta Framtíð. En ég óska þeim samt ekki að gera sömu mistök og við.