Formenn þingflokka alþingis funduðu flestir í dag samkvæmt venju. Þar var helst rætt um stjórnarmyndunarviðræður, en samkvæmt Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er staðan galopin ennþá, líkt og RÚV greindi frá.
Hún sagðist hafa talað við flesta formennina í dag og suma oftar en einu sinni. Þá sagðist hún reiðubúin að leiða ríkisstjórn sem stuðlaði að baráttumálum síns flokks, en viðurkenndi að aðrir formenn væru flestir tilbúnir til þess einnig og væru með þá „kröfu á lofti“.
Svipaða sögu er að segja af Bjarna Benedikssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, en hann sagðist í samtali við RÚV hafa talað við flesta formenn og sagði Sjálfstæðisflokkinn ásamt VG vel geta verið kjölfestuna í þriggja flokka ríkisstjórn.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins tók í svipaðan streng, sagðist reiðubúinn að leiða ríkisstjórn með breiðri skírskotun frá vinstri til hægri, en vildi ekki gefa upp við hverja hann hefði rætt í dag. Þá varaði hann við að viðræðurnar dregðust á langinn.