Í dag eru liðin 100 ár frá rússnesku byltingunni, þegar bolsévikar hertóku Vetrarhöllina, síðasta vígi stjórnarinnar. Íslenskir hægri menn hafa haldið afmælinu á lofti á samfélagsmiðlum, samanber Hannes Hólmsteinn Gissurason prófessor, Einar K. Guðfinnsson, fyrrum forseti Alþingis og ráðherra, auk þess sem leiðari Morgunblaðsins fjallar um viðburðinn í dag.
Í færslu Hannesar Hólmsteins furðar hann sig á ummælum Maríu Kristjánsdóttur á Facebook, sem samkvæmt Hannesi er bróðurdóttir stalínistans Kristins E. Andréssonar, sem Hannes segir að hafi tekið á móti „öllu Rússagullinu“ ásamt Einari Olgeirssyni.
María sagði: „Ég óska öllum þeim sem ekki eru rangeygðir af heilaþvotti kalda stríðsins til hamingju með þennan merkisdag.“
Þá segir Hannes það fróðlegt að meðal þeirra sem líkuðu við færsluna séu Svavar Gestsson og Svanur Kristjánsson, en Svavar er fyrrum formaður Alþýðubandalagsins, ráðherra og sendiherra og Svanur er prófessor í háskóla Íslands.