Smári McCarthy þingmaður og oddviti Pírata í Suðurkjördæmi segir ummæli Agnesar M. Sigurðardóttur biskups Íslands vera mjög óviðeigandi íblöndun í pólitískt mál rétt fyrir kosningar. Vísar Smári til orða Agnesar í gær þar sem hún sagði það ekki siðferðislega réttlætanlegt að stela gögnum til þess að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós.
Sjá einnig: Biskup Íslands: Ekki réttlætanlegt að stela gögnum til að afhjúpa mál
Smári segir í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag að vandinn við ummæli biskups sé margþættur:
Undarlegastur þykir mér þó sá tónn að það sé óeðlilegt að veitast að valdinu, heldur eigi bara að trúa og treysta og vera helst ekkert að skipta sér af. Þessi skilaboð eru svo sett í samhengi við siðbót,
segir Smári. Segir hann að leyndarhyggja kaþólsku kirkjunnar hafi verið hvati til siðbótar Marteins Lúthers á sínum tíma, upplýsa almenning um hvað stendur í Biblíunni, siðbót sem hafi verið drifin áfram af löngun til að koma í veg fyrir valdamisnotkun:
Líkt er farið með stjórnmálin í dag. Bjarni Benediktsson hefur lagt fram túlkun á atburðarásinni í kringum eignarhald sitt á fyrirtæki í skattaskjólinu Seychelles-eyjum og heppilegri tímasetningu á sölu sinni á eignum í Sjóði 9. Sú túlkun hefur ítrekað verið dregin í efa. Nú koma fram upplýsingar sem sýna að túlkunin er helber þvættingur, og sýna að blekkingum var beitt í skjóli valds.
Segir Smári að fjölmiðlar í dag séu í hlutverki Marteins Lúters, að mótmæla valdamisnotkun, upplýsa um sannleikann og skapa grundvöll fyrir hreinskilni:
Innantómur siðferðisboðskapur er úreltur. Sannleikurinn er ekki einkaeign kirkjunnar, né heldur leiktæki forsætisráðherra. Sannleikurinn er sjálfstæður að verðleikum og skal verja með öllum ráðum, eða öðrum kosti missa hann að eilífu.