fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
FréttirLeiðari

Endurkoma Sigmundar Davíðs

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 24. maí 2016 13:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það þykir venjulega til fyrirmyndar að gefast ekki upp þótt á móti blási heldur berjast og reyna að snúa stöðunni sér í hag. Þetta hefur fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ákveðið að gera. Hann hyggst sitja áfram sem formaður Framsóknarflokksins. Líklegt er að til þess njóti hann stuðnings þingflokksins og flestra almennra flokksmanna, þó ekki allra. Sigmundur Davíð getur búist við einhverri andstöðu frá eigin flokksmönnum, þótt langlíklegast sé að þar hafi hann sigur. Framsóknarmenn hafa löngum verið áberandi hollir foringjum sínum.

Viðhorf hinna almennu kjósenda gætu verið allt önnur. Það er engan veginn gefið að þeim þyki Sigmundur Davíð hafa gefið fullnægjandi skýringu á sínum málum. Framsóknarflokkurinn á því á hættu að missa fylgi í næstu kosningum leiði Sigmundur flokkinn og tapið gæti hugsanlega orðið umtalsvert. Sigmundur Davíð verður að spila vel úr erfiðri stöðu og hvergi misstíga sig. Hann hefur hins vegar þegar stigið feilspor.

Það verður að teljast óheppilegt að Sigmundur Davíð stígi aftur á hið pólitíska svið, eftir langt leyfi, með því að gera lítið úr loforði félaga síns og núverandi forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, og fjármálaráðherrans, Bjarna Benediktssonar, um að kosningar verði haldnar í haust, þá líklega í október. Það loforð, ásamt afsögn Sigmundar Davíðs úr forsætisráðherraembætti, varð til að róa afar reiða þjóð sem aftur var farin að skunda á Austurvöll þar sem einhverjir dunduðu sér við þá miður smekklegu iðju að henda eggjum í Alþingishúsið. Ef ríkisstjórnin heykist á því að efna loforð sitt um kosningar í haust er næsta víst að reiðin mun blossa upp að nýju og ólga skapast í samfélaginu. Reiði almennings mun þá bitna á stjórnarflokkunum með tilheyrandi niðurlægingu í kosningum.

Framsóknarflokkurinn er í erfiðri stöðu, en þó ekki vonlausri. Sigmundur Davíð þarf að vanda sig og það ætti hann að geta því hann er að mörgu leyti snjall stjórnmálamaður og getur virkað mjög sannfærandi þegar hann talar um mál sem honum eru hugleikin. Það væri ekki klókt hjá honum að þrýsta á að loforð um kosningar verði dregið til baka. Miklu frekar ætti hann að sætta sig við að þjóðinni var gefið loforð sem verður að efna og beina kröftum sínum að því að kynna mál sem hann telur varða þjóðarhag. Nýr liðsmaður í forystusveit Framsóknarflokksins, utanríkisráðherrann Lilja Alfreðsdóttir, er mikill happafengur fyrir flokkinn og hefur brillerað í starfi. Hún er efni í framtíðarleiðtoga. Flokkurinn myndi örugglega græða á því að hampa henni í kosningabaráttu. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur síðan komið á óvart sem forsætisráðherra, þvert á það sem margir ætluðu hefur hann staðið sig vel.

Undanfarið hefur Framsóknarflokkurinn ekki mælst hátt í skoðanakönnunum. Enginn skyldi þó afskrifa flokkinn. Framsóknarflokkurinn hefur nær alltaf kunnað að haga kosningabaráttu á þann hátt að fylgið skilar sér, andstæðingum flokksins til mikillar hrellingar.

Við vitum ekki hvernig Sigmundur Davíð mun spila úr erfiðri stöðu en sannarlega verður fróðlegt að sjá hvort honum muni takast að snúa henni sér í vil. Takist það er um töluvert afrek að ræða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar