

Í dag er nýársdagur og óhjákvæmilegur fylgifiskur hans hjá Íslendingum er að ræða um Áramótaskaup RÚV sem sýnt var á sínum hefðbundna tíma á gamlárskvöld. Miðað við umræðuna á samfélagsmiðlum virðist almenn ánægja hafa verið með Skaupið í þetta sinn þótt það beri vissulega eitthvað á óánægjuröddum. Sumir þeirra einstaklinga sem gert var grín að í Skaupinu hafa tjáð sig um það og lýsa yfir ánægju sinni.
Í nokkrum fjölda færslna á Facebook-síðu RÚV er spurt hvernig áhorfendum fannst Skaupið. Þeir sem segjast hafa verið hrifnir af því eru töluvert fleiri en þeim sem láta RÚV vita að þeim hafi ekki fundist Skaupið gott. Nokkuð er um að fólk taki sérstaklega fram að því finnist þetta Skaup hafa verið eitt það besta undanfarin ár. Sumir hrósa sérstaklega Sólmundi Hólmi sem fór með hlutverk Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Ein af þeim sem lýsir ánægju sinni í athugasemd við færslu RÚV er Edda Björgvinsdóttir leikkona sem hefur komið að fjölda Áramótaskaupa í gegnum árin og lék í einu atriði í skaupi ársins 2025:
„Frábært skaup!!! Takk elsku ungu listamenn fyrir að skrifa, stjórna og slá í gegn.“
Þegar leitað er að færslum um Skaupið á Facebook finnst fjöldi færslna þar sem ánægju er lýst yfir en það er þó ekki algilt en einn aðili sem var ekki sáttur sagði Skaupið hafa verið:
„Rætið og ljótt.“
Í einni færslu var höfundum Skaupsins hrósað fyrir að „þora“ og loksins hafi eftir mörg mögur ár verið að finna kaldhæðni í því.
Meðal þekktra einstaklinga sem taka þátt í umræðunni á Facebook er Anna Kristjánsdóttir sem segist vera ánægð með Skaupið fyrir utan þau atriði þar sem gert var grín að Guðmundi Inga Kristinssyni sem er í veikindaleyfi frá störfum sínum sem mennta- og barnamálaráðherra:
„Að öðru leyti minnir mig, að jafngott skaup hafi ekki verið síðan 2008 þegar Áramótaskaupið þurfti að gera upp hrunið með eftirminnilegum hætti.“
Jakob Bjarnar Grétarson blaðamaður segir að hann muni ekki hvenær Skaupið hafi verið jafn gott síðast. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra tekur undir í athugasemd við færslu blaðamannsins um gæði Skaupsins og það sama gerir Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar. Ekki eru þó allir sem rita athugasemd við færslu Jakobs ánægðir.
Í sinni eigin færslu lýsir Sigmar yfir sérstakri ánægju með eitt atriði í Skaupinu:
„„Þessir útlendingar skilja náttúrulega ekki rassgat, sko.“ Sjö stjörnur af fimm mögulegum.“
Í athugasemd við færslu Sigmars er hins vegar því lýst yfir að Skaupið hafi verið illkvittið í garð eins ráðherra og þar er líklega átt við Guðmund Inga.
Við skoðun á samfélagsmiðlinum X sést sams konar mynd og á Facebook. Mun meira ber á ánægju en kvörtunum.
Sumir þeirra stjórnmálamanna sem teknir voru fyrir í Skaupinu hafa tjáð sig um það og lýst yfir ánægju sinni. Meðal þeirra er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sem virtist þó eilítið hissa á að vera tekin fyrir í ljósi þess að hún fór á nýliðnu ári í námsleyfi frá stjórnmálunum:
Frábært skaup! Skemmtilegt, fyrir allan aldur og gott jafnvægi. Gleðilegt ár kæru vinir, gott að námamenn komist enn í skaupið! #skaupið pic.twitter.com/UrQq5cbSJK
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) January 1, 2026
Einn notandi X benti á, með kaldhæðnina að vopni, að andstæðingur Áslaugar Örnu og sigurvegarinn í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins kom ekkert fyrir í Skaupinu:
Mvp skaupsins – Ísdrottningin kom, sá og sigraði #skaupið pic.twitter.com/SeQX9qERS4
— Sigurður Ingi Ricardo (@Ziggi92) January 1, 2026
Í stuttri færslu á Facebook sagðist Sanna Magdalena Mörtudóttir oddviti Sósíalista í borgarstjórn Reykjavíkur mjög ánægð með atriði þar sem hún kom fyrir ásamt öðrum oddvitum meirihlutans.
Í einu atriði var sérstaklega gert grín að borgarstjóranum í Reykjavík, en í atriðinu mundi enginn nafn borgarstjórans sem virðist þó alls ekki hafa tekið grínið nærri sér:

Loks má geta þess að annar skapara hinnar óviðjafnanlegu Silvíu Nætur lýsti yfir ánægju með endurkomu hennar í lokaatriði Skaupsins.
Mikið var gaman að sjá sköpunarverk okkar Ágústu Evu aftur á skjánum eftir öll þessi ár. #skaupið
— Gaukur Ulfarsson (@gaukur_u) January 1, 2026
Lesendur eru hvattir til að taka þátt í óvísindalegri skoðanakönnun DV um hvað þjóðinni fannst um Áramótaskaupið 2025.