

Í dag er síðasti dagur ársins og á morgun hefst nýtt ár. Áramótin eru hjá mörgum tími íhugunar enda marka þau mikil tímamót í hugum okkar flestra.
Vonandi gefur nýtt ár okkur Íslendingum tækifæri og getu til að bæta mannlífið í landinu og til að horfa með bjartsýni til komandi árs. Skoðum þetta nánar.
„Hver dagur er nýr dagur. Það er gott að vera heppinn en ég vil frekar vera nákvæmur. Svo þegar heppnin kemur, ertu tilbúinn.“ Þetta sagði Ernest Hemingway í bók sinni Gamli maðurinn og hafið.
Þessi heimspeki hans segir okkur að hver dagur sé nýtt upphaf og að lífið er stöðug ferðalag endurnýjunar. Sama hvað gerðist í gær: árangur, mistök, eftirsjá eða gleði, færir hver nýr dagur og hvert nýtt ár okkur ný tækifæri.
Hver dagur næsta árs markar því nýtt upphaf. Þetta er hugarfar og afstaða sem ég hvet þig ágæti lesandi til að tileinka þér á nýju ári. Á hverjum degi bíða þín um 16 klukkustundir af lífi, starfi og upplifun.
Líttu því á hvern dag sem tækifæri til að ná árangri, upplifa gleði og njóta lífsins. Hafðu þá ávallt mikilvægustu mál lífs þíns í forgangi.
Áramótin marka kaflaskil hjá flestum sem líta um öxl og hugleiða hvað gekk vel á liðnu ári og hvað hefði mátt gera betur. Flest reynum við svo að gera betur á nýju ári.
Það hefur reynst mörgum vel að setja sér skrifleg markmið i upphafi nýs árs til dæmis um heilsurækt, þekkingaröflun, starfsþróun og bætt samskipti.
Fram að árinu 713 fyrir krists burð voru aðeins 10 mánuðir í árinu og áramótin voru um mánaðamótin febrúar og mars. Það var fyrst árið 1592 að áramótin voru færð í núverandi horf.
Áður var desember tíundi mánuðurinn. Dagarnir 58 frá desemberlokum til fyrsta mars voru kallaðir vetrarmánuðir en Pompilius konungur Rómar ákvað að finna nöfn á þessa tvo nýju mánuði ársins.
Ákveðið var að nefna fyrsta mánuðinn Janúar og er hann kenndur við Janus, hinn rómverska guð byrjunar og breytinga.
Það áhugaverða við Janus er að hann er með tvö andlit, eitt að framan og annað aftan á höfðinu.
Það voru því rómverjar sem fengu þá hugmynd að líta til baka og einnig til framtíðar um áramót.
Það sem skilur manninn frá dýrunum er að maðurinn hefur sjálfsmynd, tungumál og hugsanir. Mikilvægasti munurinn er þó sá að við mannfólkið þurfum flest að sjá tilgang í þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur.
Í ferðum mínum um Japan hef ég tekið eftir og lesið um einstaka nálgun Japana við eftirlaunaárin en „ikigai“ er japanska orðið yfir þau ár.
Ikigai þýðir „hamingjan við það að hafa alltaf eitthvað fyrir stafni.“ Japanir fullyrða að það geri lífið innihaldsríkara að finna sinn „ikigai“.
Japanskt spakmæli segir: „Aðeins að vera virkur fær þig til að vilja lifa í hundrað ár“ en Japanir eru meðal langlífustu þjóða í heiminum. Margir Japanir á eftirlaunum vinna hluta úr degi á góðum launum.
Komin er út bókin Síungir karlmenn – Innblástur, innsæi og ráð.
Bókin hefur að geyma 45 hugleiðingar fyrir alla sem eru komnir á efri ár, þó sérstaklega karlmenn. Þarna er um að ræða hvatningu að fara úr viðjum vanans, brjóta upp eldri viðmið samfélagsins, vera virkir á efri árum og finna tilganginn eins og Japanir gera.
Höfundarnir vilja stuðla að breyttum viðhorfum samfélagsins til aldurs og er margt hægt að læra af þessum síungu rithöfundum.
Enginn getur spáð fyrir um atburði ársins sem er að ganga í garð.
Í heimsmálunum vona ég helst að stríðinu í Úkraínu ljúki á nýju ári og að lýðræði taki við af einræði í sem flestum löndum heims en aðeins um helmingur mannkyns býr við lýðræði í dag. Evrópulönd hafa sannað sig sem helstu lýðræðisríki heimsins og erum við Íslendingar þar fremstir í flokki.
Hér heima vona ég að við náum að vernda einstaka náttúru landsins okkar þannig að framtíðarkynslóðir Íslendingar og erlendir ferðamenn fái að njóta hennar áfram.
Ég vona að landið okkar verði áfram í fremstu röð ríkja í heiminum hvað varðar lífsgæði og frelsi, jafnrétti og mannréttindi og að menningin og atvinnulífið í landinu okkar haldi áfram að blómstra.
Ég vona einnig að við Íslendingar náum að tengjast nágrannalöndum okkar enn sterkari böndum.
Afkoma okkar og lífsskilyrði byggjast að miklu leyti á öflugum útflutningi á vörum og þjónustu, frjálsum viðskiptum og frjálsu flæði fjármagns og vinnandi fólks milli landa. Þetta höfum við getað tryggt með samningum við nágrannaþjóðir okkar í Evrópu.
Fram undan eru kosningar um framhald viðræðna okkar við Evrópusambandið og í kjölfarið verður kosið um þann samning sem við gerum við ESB um fulla aðild að sambandinu.
Í aðdraganda kosninganna fáum við tækifæri til að meta kosti og galla aðildar og kjósa síðan í kjölfarið.
Þessar kosningar eru líklega þær mikilvægustu sem við Íslendingar tökum þátt í á næstu árum.
Með fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu getum við bætt lífsskilyrði okkar og afkomu, aukið námstækifæri ungs fólks erlendis og fjölgað tækifærum íslenskra fyrirtækja til að eflast í alþjóðaviðskiptum og nýsköpun.
Við þurfum að skjóta fleiri stoðum undir einhæfan útflutning okkar og tryggja þannig velsæld og framfarir í landinu okkar. Það getum við gert með hagstæðum samningum við Evrópusambandið.
Með aðild getum við einnig eflt varnir landsins í samstarfi við önnur Evrópulönd.
Með upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils lækkum við vaxtakostnað heimila og fyrirtækja um rúmlega helming og verðum fullgildir þátttakendur í stærsta samvinnuverkefni sem heimurinn hefur stofnað til á síðustu öldum – Evrópusambandinu.
Göngum því til nýs árs með bjartsýni í huga.
Höfundur er stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni
www.evropa.is og https://www.facebook.com/evropuhreyfingin