fbpx
Mánudagur 29.desember 2025
Fréttir

Hafnarfjarðarbær fer aftur í hart við bindindissamtök

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 29. desember 2025 14:00

Gúttó er sögufrægt hús. Mynd/Hafnarfjarðarbær

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafnarfjarðarbær hefur ekki gefist upp á tilraunum sínum til að eignast Góðtemplarahúsið í bænum en deilt hefur verið um yfirráð yfir húsinu í töluverðan tíma. Bærinn hefur í þessu skyni stefnt bindindissamtökunum IOGT sem eru heildarsamtök Góðtemplara á Íslandi, og Góðtemplarafélaginu í Hafnarfirði sem þó hefur verið afskráð. Hafði bærinn áður beðið ósigur í dómsmáli þar sem IOGT hafði tekist að fá staðfesta kvöð um að ekki mætti afsala húsinu til bæjarins án samþykkis samtakanna.

Góðtemplarahúsið stendur við Suðurgötu 7 í Hafnarfirði og hefur oft verið kallað Gúttó. Það var byggt 1886 og er sögufrægt samkomuhús í bænum. Fasteignamat þess á síðasta ári var um 70 milljónir króna en lóðin sem húsið stendur á er sögð mun verðmætari. Síðustu ár hefur Hafnarfjarðarbær séð um viðhald hússins og rekstur. Árið 2023 var eignarhald hússins formlega fært yfir á bæinn en IOGT fór þá í mál við bæinn og Hafnarfjarðardeild samtakanna en samtökin sögðu húsið hafa verið gefið bænum án heimildar landssamtakanna.

Bindindismenn saka Hafnarfjarðarbæ um að taka af sér Gúttó – „Þetta virkar svolítið eins og frekja“

Héraðsdómur hafnaði kröfu IOGT og sagði samtökin raunar aldrei hafa verið þinglýstan eiganda að húsinu heldur félag Góðtemplara í Hafnarfirði. Landsréttur sneri hins vegar dómnum við á þeim grunni að Góðtemplarar í Hafnarfirði hefðu ekki verið sjálfstætt félag heldur hluti af IOGT og því fékk bærinn ekki að eignast húsið. Hæstiréttur hafnaði síðan beiðni um áfrýjun.

Bindindismenn höfðu sigur gegn Hafnarfirði og þremur stjórnarmönnum – Fá að eiga Gúttó áfram

Taka tvö

Í Lögbirtingablaðinu í morgun er síðan birt stefna Hafnarfjarðarbæjar á hendur IOGT og hinu afskráða félagi Góðtemplara í Hafnarfirði. Stefnan er lögð fram í því skyni að fá viðurkenndan eignarrétt bæjarins yfir Gúttó. Stefnan er yfirgripsmikil og í henni er saga hússins og skráðs eignarhalds yfir því rakin með afar ítarlegum hætti.

Í stefnunni segir meðal annars að bærinn hafi fengið hafi fengið eigninni afsalað til sín frá Góðtemplurum í Hafnarfirði með lögmætum hætti. Leiða megi af gögnum málsins þann skýra vilja Góðtemplara í Hafnarfirði að bærinn eignaðist fasteignina, gegn því að taka við rekstri hennar, sem bærinn hafi og gert. Einnig sé unnt að rekja eigendasögu fasteignarinnar frá Góðtemplurum í Hafnarfirði, í gegnum undirstúkur félagsins, Morgunstjörnuna nr. 11 og Daníelsher nr. 4, og sameignarfélagið Góðtemplarahúsið, sem hafi á tímabili verið skráður þinglýstur eigandi, og til bæjarins.

Frá því að Morgunstjarnan nr. 11 hafi verið lögð niður 1990 hafi eignin að Suðurgötu 7 verið í eigu stúkunnar Daníelshers nr. 4, þó í seinni tíð í gegnum sameignarfélagið Góðtemplarahúsið. Ekki liggi fyrir upplýsingar um tilurð þess félags, en leiða megi að því líkur að félagið hafi verið stofnað til þess að formfesta eignarhald hússins og halda utan um rekstur þess.

Sjálfstætt

Segir enn fremur í stefnunni að bærinn telji undirstúkurnar tvær, Morgunstjarnan nr. 11 og Daníelsher nr. 4, hafa verið sjálfstæðar einingar með sjálfstæðan fjárhag og verið lögmætir eigendur fasteignarinnar að Suðurgötu 7, jafnvel þó þær hafi tilheyrt heildarsamtökum Góðtemplara á Íslandi, IOGT.

Stúkurnar hafi ráðið sínum málum sjálfar og haft full yfirráð yfir fasteigninni að Suðurgötu 7, án nokkurrar aðkomu IOGT. Sú fullyrðing að undirstúkurnar hafi sjálfar verið eigendur þeirra fasteigna sem þær byggðu og ráku eigi sér jafnframt stoð í lögum IOGT frá árinu 2000 en í þeim lögum kemur fram að engin deild samtakanna geti selt fasteign án samþykktar aðalstjórnar. Bærinn vill þó meina að þar sem eignarrétturinn yfir húsinu og frjáls ráðstöfun hans sé mun eldri en þessi lög IOGT sé með þeim því ekki hægt að takmarka eignarrétt stúkanna í Hafnarfirði yfir húsinu.

Það segir einnig í stefnunni að IOGT hafi ekki haft nokkra aðkomu að rekstri hússins og aldrei tekið þátt í neinum kostnaði því tengdu. Jafnvel þegar rekstur hússins hafi verið orðinn þungur og ráðast hafi þurft í lántöku og loks leitað aðstoðar hjá bænum, hafi IOGT enga tilraun gert til þess að aðstoða Góðtemplara í Hafnarfirði við rekstur hússins. Þá liggi ekkert fyrir sem bendi til einhvers konar beins eða óbeins eignarhalds IOGT að fasteigninni.

Aldrei

Með vísan til meðal annars þessa er fullyrt í stefnunni að aldrei hafi átt að þinglýsa kvöð IOGT á eignina að Suðurgötu 7, þar sem IOGT hafi ekki verið þinglýstur eigandi eignarinnar og ekki haft samþykki þinglýsts eiganda fyrir kvaðasetningu fasteignarinnar.

Fyrra dómsmálið hafi verið afmarkað og snúist um þinglýsingu kvaðarinnar. Það mál hafi takmörkuð áhrif í því máli sem nú sé höfðað og beri héraðsdómi því að framkvæma heildstætt mat á því, að virtum öllum þeim gögnum og upplýsingum sem nú liggi fyrir, hvort heimilt hafi verið að þinglýsa kvöð IOGT á eignina og hvort hún skuli standa. Til kvaðarinnar hafi hvorki verið stofnað á grundvelli gagnkvæms samnings milli IOGT og þinglýsts eiganda fasteignarinnar né á grundvelli einhliða yfirlýsingar þinglýsts eiganda. Sé því ljóst að IOGT hafi brostið þinglýsta heimild til að ráðstafa eigninni á þann hátt sem lýst hafi verið kvöðinni og sýslumanni því verið óheimilt að þinglýsa henni.

Kostnaður

Engu máli skipti í þessu samhengi þótt síðar hafi komið í ljós að eignarheimild sameignarfélagsins Góðtemplarahússins finnist ekki, enda hafi bærinn verið með öllu grandalaus um þá staðreynd þegar eigninni var afsalað til hans. Sömuleiðis hafi bærinn verið grandalaus um kvöð IOGT. Ótækt sé að sýslumaður hafi breytt skráningu þinglýsts eiganda frá sameignarfélaginu yfir í Góðtemplara í Hafnarfirði. Það breyti ekki rétti bæjarins til eignarinnar og er einnig vísað til þess að þar sem bærinn hafi skuldbundið sig til þess að standa straum af öllum kostnaði við rekstur hússins sé honum nauðsynlegt að höfða mál þetta til viðurkenningar á eignarrétti sínum. Hafi rekstur hússins kostað bæinn 40 milljónir króna á árunum 2008-2023.

Höfðar því bærinn mál á hendur þinglýstum eiganda, Góðtemplurum í Hafnarfirði en eins og áður segir hefur það félag verið afskráð, og IOGT sem handhafa kvaðarinnar, til að fá eignarhald sitt yfir Góðtemplarahúsinu viðurkennt.

Tekið er þó fram að vafi leiki á aðildarhæfi Góðtemplara í Hafnarfirði í ljósi afskráningarinnar.

Málið verður tekið fyrir við Héraðsdóm Reykjaness í febrúar næstkomandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Safnað fyrir Kjartan sem slasaðist í bílslysi í Suður-Afríku – „Kjartan er sannur vinur“

Safnað fyrir Kjartan sem slasaðist í bílslysi í Suður-Afríku – „Kjartan er sannur vinur“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakamál ársins II: Morð í Súlunesi, ráðgáta á Edition, stoltur sakborningur og blóðug slagsmál á Litla-Hrauni

Sakamál ársins II: Morð í Súlunesi, ráðgáta á Edition, stoltur sakborningur og blóðug slagsmál á Litla-Hrauni
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Þúsundir skólabarna heimsóttu kirkjur á aðventunni

Þúsundir skólabarna heimsóttu kirkjur á aðventunni
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Það er ekki hægt að losna alfarið við pappírs- og plasttunnurnar

Það er ekki hægt að losna alfarið við pappírs- og plasttunnurnar
Fréttir
Fyrir 6 dögum

Martröð ferðamanns á Íslandi – Kostnaðurinn rauk upp vegna bílastæða

Martröð ferðamanns á Íslandi – Kostnaðurinn rauk upp vegna bílastæða
Fréttir
Fyrir 6 dögum

Íslendingur í fangelsi í Kólumbíu grunaður um kynferðisbrot gegn unglingsstúlku

Íslendingur í fangelsi í Kólumbíu grunaður um kynferðisbrot gegn unglingsstúlku
Fréttir
Fyrir 6 dögum
Maðurinn er fundinn