fbpx
Mánudagur 29.desember 2025
Fréttir

Leigði ferðamanni tjónaðan bíl og lét hann borga viðgerð

Ritstjórn DV
Mánudaginn 29. desember 2025 12:30

Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur komist að þeirri niðurstöðu að bílaleigu beri að endurgreiða ferðamanni viðgerðarkostnað vegna húsbíls sem hann leigði. Var húsbíllinn nokkuð tjónaður þegar ferðamaðurinn tók við honum og ekki þótti sannað að hann hefði valdið frekara tjóni á bílnum.

Bílaleigan er ekki nafngreind í úrskurði nefndarinnar og hún kaus að taka ekki til varna fyrir nefndinni.

Ferðamaðurinn leigði húsbílinn í um vikutíma í maí síðastliðnum og greiddi fyrir 1.778,59 evrur (um 263.200 íslenskar krónur). Eftir að hann skilaði bílnum gjaldfærði bílaleigan til viðbótar af greiðslukorti hans 1.234,85 evrur ( um 182.800 íslenskar krónur). Sagði bílaleigan þetta vera vegna tjóns sem orðið hefði á einum glugga bílsins.

Ferðamaðurinn vísaði í kæru sinni til þess að sú bifreið sem bílaleigan leigði honum hafi verið í lélegu ástandi og töluvert tjónuð. Hann hafi beðið í um tvær og hálfa klukkustund á starfsstöð bílaleigunnar eftir því að fá bifreiðina afhenta og þegar afhendingin átti sér stað hafi starfsmaður fyrirtækisins ekki gefið sér tíma til að yfirfara bifreiðina með honum vegna lokunar starfsstöðvarinnar þann dag. Tók ferðamaðurinn þó myndir af bílnum við upphaf leigutímans.

Bremsur

Í kæru ferðamannsins kom fram að á þriðja degi leigutímans, sem var á laugardegi, hafi boð birst í mælaborði bílsins þess efnis að þörf væri á að fylla á bremsuvökva. Hafi hann haft samband við bílaleiguna umsvifalaust í gegnum forritið WhatsApp og upplýst um stöðuna. Hafi svörin verið á þá leið að hann yrði að leita sjálfur á bifreiðaverkstæði eftir helgi til að láta mæla bremsuvökvann og fylla á.

Taldi ferðamaðurinn þetta óásættanleg viðbrögð enda varasamt að aka bifreið án fullvirkra bremsa. Þá sagðist ferðamaðurinn jafnframt hafa upplýst bílaleiguna um að akrýlplast í kringum glugga á hlið bifreiðarinnar hafi sprungið þegar hann hafi lokað glugganum með gætilegum hætti. Hafi svarið verið að glugginn yrði skoðaður við lok leigutímans. Við skil bifreiðarinnar hafi hann hins vegar verið rukkaður um greiðslu viðgerðarkostnaðar. Sagðist ferðamaðurinn hafa reynt að sýna bílaleigunni gögn sem sýndu ástand bifreiðarinnar fyrir leiguna en ekki hafi verið tekið mark á þeim.

Ferðamaðurinn stóð fastur á því að hafa ekki valdið tjóni á bifreiðinni. Vísaði hann til framlagðra ljósmynda og myndbanda af bifreiðinni við upphaf leigutímans því til stuðnings. Af þessum gögnum yrði ráðið að sýnileg sprunga hafi verið í efra hægra horni gluggakarmsins að utanverðu. Auk þess mætti sjá greinilega leifar af límbandi í kringum gluggann sem benti til þess að hann hafi áður verið límdur vegna skemmda. Loks vísaði ferðamaðurinn til þess að í leigusamningi væri gerð grein fyrir öllu skráðu tjóni á bifreiðinni fyrir leigutímann. En þar var tilgreint tjón á nokkrum stöðum á bílnum þar af stór beygla á annarri hliðinni.

Taldi ferðamaðurinn að þetta skráða tjón, auk framlagðrar ljósmyndar, renndi stoðum undir það að yfirbygging bifreiðarinnar við gluggann hafi verið tjónað fyrir og því veikleiki í karmi gluggans. Sagðist hann hafa óskað eftir gögnum vegna viðgerðar á bifreiðinni, meðal annars sundurliðun á viðgerðarkostnaði. Hafi bílaleigan vísað til þess að viðgerðarkostnaður væri ákvarðaður með hennar eigin reikniriti. Þá hafi bílaleigann hafnað að afhenda honum önnur gögn en framlagða tjónaskýrslu.

Ekkert

Kærunefnd vöru- og þjónustakaupa segir niðurstöðu sína í málinu óhjákvæmilega litast af því að bílaleigan hafi ekki tekið til nokkurra varna.

Nefndin telur að ekkert liggi fyrir í málinu sem renni stoðum undir að ferðamaðurinn hafi sýnt af sér gáleysi eða að öðru leyti ekið eða nýtt bifreiðina í ósamræmi við skilmála bílaleigunnar. Þá geti þær ljósmyndir sem sýni einn hliðarglugga hennar sem límdur sé að hluta til með límbandi, sem bílaleigan hafi látið fylgja með tjónamati sínu, ekki fært sönnur á hið meinta tjón.

Þá liggi ekkert fyrir sem staðreyni að bílaleigan hafi í raun greitt viðgerðarkostnaðinn sem tilgreindur sé í tjónamati hennar vegna viðgerðar á bifreiðinni, hvað þá aðra fjárhæð. Loks sé óvíst hvort viðgerð hafi í raun farið fram eða hvort bílaleigan hafi fengið tjón sitt bætt frá vátryggingarfélagi sínu í heild eða að hluta. Fyrrgreint tjónamat bílaleigunnar dugi ekki eitt og sér til þess að sýna fram á fjárhagslegt tjón, eða að því hafi verið valdið með skaðabótaskyldri háttsemi ferðamannsins.

Nefndin segir bílaleiguna hafa hvorki sýnt fram á að ferðamaðurinn beri ábyrgð á því tjóni sem varð á húsbílnum né hvert raunverulegt fjárhagslegt tjón hennar sé vegna viðgerðar á bílnum. Verði því ekki séð á hvaða grundvelli hafi verið krafðist greiðslu að fjárhæð 1.234,85 evrur og því sé fallist á að þessa upphæð beri bílakeigunni að endurgreiða ferðamanninum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sakamál ársins III: Mannslát á Kársnesi, lögmaður í einangrun, kynferðisbrot gegn börnum, nauðgari handtekinn á Heimildinni

Sakamál ársins III: Mannslát á Kársnesi, lögmaður í einangrun, kynferðisbrot gegn börnum, nauðgari handtekinn á Heimildinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varð fyrir alvarlegri árás á Kirkjusandi – „Grátandi, alein, blæðandi kona, en enginn stoppaði“

Varð fyrir alvarlegri árás á Kirkjusandi – „Grátandi, alein, blæðandi kona, en enginn stoppaði“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Úrskurðir ársins I: Varasamur læknir, ólögleg aflífun og „gallaður“ hundur

Úrskurðir ársins I: Varasamur læknir, ólögleg aflífun og „gallaður“ hundur
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Íslendingur í fangelsi í Kólumbíu grunaður um kynferðisbrot gegn unglingsstúlku

Íslendingur í fangelsi í Kólumbíu grunaður um kynferðisbrot gegn unglingsstúlku
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Maðurinn er fundinn

Maðurinn er fundinn