

Vilhjálmur gerði þetta að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.
„Þetta er „jólagjöfin“ sem verðtryggð heimili fá þessi jólin,” sagði Vilhjálmur og bætti við að hækkun verðtryggðra húsnæðislána heimilanna nemi 23 milljörðum króna, eingöngu vegna þess að neysluverðsvísitalan hækkar um 1,15% á milli mánaða.
„Heimilin skulda yfir 2.000 milljarða króna í verðtryggðum lánum og hver einasta hækkun vísitölunnar skilar sér beint í hærri skuldum,” sagði Vilhjálmur og bætti við að þetta bitnaði ekki eingöngu á þeim sem eiga lán.
„Þeir sem búa í leiguhúsnæði finna líka fyrir þessu. 320 þúsund króna húsleiga hækkar um tæpar 3.700 krónur á mánuði þegar vísitalan hækkar um 1,15%. Verðbólgan fer þannig beint inn í heimilisbókhaldið – bæði hjá skuldsettum heimilum og leigjendum.”
Vilhjálmur var ómyrkur í máli í samtali við mbl.is í gær og sagði að það væri ekkert skrýtið að við næðum ekki tökum á verðbólgunni ef stjórnvöld, sveitarfélög, verslun og þjónusta tækju ekki þátt í þessari vegferð.
Kvaðst hann hafa áhyggjur af því að Seðlabankinn muni ekki lækka stýrivexti vegna hækkandi verðbólgu og þá sagðist hann óttast að forsendur kjarasamninga muni ekki standa þegar kemur til endurskoðunar næst.