

Sævar Þór Sveinsson, sem heldur utan um síðuna Utanvallar.is, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni á 433.is og fór yfir fjármálahlið íþróttanna.
Það hneyksluðust margir á því í haust þegar Halldór Árnason fékk nýjan samning sem þjálfari Breiðabliks en var svo rekinn tveimur mánuðum seinna.
Talið er að þetta hafi kostað Blika yfir 20 milljónir króna, en þetta var sett í samhengi við peningana sem félagið fær fyrir árangur í Sambandsdeildinni, þar sem Blikar duttu út í deildarkeppninni en söfnuðu fimm stigum og um 650 milljónum í heildina.
„Það er áhugavert að horfa til þess nú að margir voru hneykslaðir á þessum samningi sem var gerður við Dóra Árna, það er kannski lág upphæð í stóra samhenginu?“ spurði Helgi í þættinum.
„Já, já. Það er búið að borga sig til baka með jafnteflunum og sigrunum gegn Shamrock. Ef þú horfir í baksýnisspegilinn held ég að menn séu ekkert að spá í þessu þegar þú ert með þennan gullpott sem Evrópukeppnin er fyrir framan þig,“ sagði Sævar.
Þátturinn í heild er í spilaranum.