Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem sakfelldi mann fyrir tilraun til fjársvika með því að hafa sótt um bætur vegna tjóns á bifreið hans eftir að hann hefði misst stjórn á henni, við brú yfir Álftá í Borgarfirði, og hún endað utan vegar. Úrslitaáhrif hafði að staða kílómetramælis bifreiðarinnar samræmdist ekki frásögn mannsins.
Maðurinn tilkynnti tryggingafélaginu Verði í ágúst 2022 að tjón hefði orðið á bifreiðinni þegar hann hefði misst hana út í vegkant við brú yfir Álftá í Borgarbyggð með þeim afleiðingum að hún hefði farið fram af veginum, fallið niður árbakkann og endað úti í vatni. Hafi bifreiðin reynst óökuhæf í kjölfarið. Samkvæmt ákæru var maðurinn með þessu að beita blekkingum til að fá tryggingarfélagið til þess að bæta tjónið en áætlaður kostnaður af viðgerð hefði numið um 3,3 milljónum króna. Vörður greiddi manninum hins vegar aldrei neinar bætur en kærði hann til lögreglu fyrir tilraun til tryggingasvika.
Misræmi
Í niðurstöðu Landsréttar segir að maðurinn hafi frá upphafi neitað sök. Hafi framburður hans verið stöðugur, að því frátöldu að í frumskýrslu lögreglu komi fram að hann hafi við tilkynningu atviksins í ágúst 2022 sagt bifreiðina sitja fasta úti í ánni en ekki á árbakkanum. Samræmist það ekki tilkynningu hans til Varðar daginn eftir, skýrslu hans hjá lögreglu og framburði fyrir dómi, þar sem hann segðist hafa náð að bakka bifreiðinni upp úr ánni þar sem hún hefði síðan setið föst. Hafi maðurinn útskýrt þetta misræmi með þeim hætti að segja lögreglu, sem hann hafi fyrst átt samskipti við í síma, hafa misskilið sig. Landsréttur segir að við mat á því hvort þetta hafi þýðingu fyrir mat á trúverðugleika framburðar hans verði að líta til þess að í framburði íbúa á næsta bæ, við staðinn þar sem bifreiðin fór út af veginum, hafi komið afdráttarlaust fram að þegar hann kom á vettvang hefði bifreiðin verið úti í ánni.
Landsréttur segir einnig að við mat á trúverðugleika mannsins verði að líta til þess að hann hafi engar skýringar getað gefið hjá lögreglu eða fyrir dómi á því af hverju skráð
kílómetrastaða bifreiðarinnar var einungis 47 kílómetrum meiri er atvikið átti sér stað í ágúst 2022 en þegar hún var á verkstæði í júní sama ár. Hafi hann haldið sig við
framburð sinn um að hafa keyrt bifreiðina frá heimili sínu á Kjalarnesi umræddan dag en fyrir liggi að um sé að ræða umtalsvert lengri vegalengd en 47 kílómetrar. Fyrir héraðsdómi hefði maðurinn sagt að eftir að honum og bróður hans hefði tekist að koma bifreiðinni aftur í lag hefði hann notað hana „eitthvað“. Sé horft til þess og gagna málsins um kílómetrastöðu bifreiðarinnar umrædda daga sé þessi hluti framburðar mannsins ótrúverðugur en engin efni séu til að ætla að þau gögn sem ágreiningslaust sé að stafi frá framleiðanda bifreiðarinnar og séu úr tölvu hennar séu röng.
Sé fallist á með ákæruvaldinu að skráð þjónustusaga bifreiðarinnar fái þessari niðurstöðu ekki haggað. Beri þessi hluti framburðar ákærða með sér að hann leyni upplýsingum um akstur bifreiðarinnar umræddan dag og þar með um aðdraganda atviksins.
Blekking
Það er því niðurstaða Landsréttar, með vísan til alls þessa, að framburður mannsins sé ótrúverðugur. Sé horft til efnis tjónstilkynningar ákærða og fyrrgreindra gagna málsins um kílómetrastöðu bifreiðarinnar sé fallist á það með ákæruvaldinu að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi ætlað að blekkja Vörð til greiðslu bóta úr vátryggingu bifreiðarinnar vegna tjóns á vél hennar. Það hafi ekki þýðingu fyrir niðurstöðu málsins þótt tjónstilkynning mannsins til Varðar beri ekki sérstaklega með sér að krafist væri bóta vegna tjóns á vél bifreiðarinnar, enda sé hún þar hvergi undanskilin og auk þess merkt við reit í tilkynningunni um að bifreiðin væri óökufær.
Verði við það miðað að maðurinn hafi með tilkynningunni haft ásetning til að vekja þá röngu hugmynd hjá Verði, eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd félagsins, að tjón hafi orðið á vél bifreiðarinnar.
Var því, á þessum grundvelli, sakfelling mannsins fyrir tilraun til fjársvika staðfest. Landsréttur breytti ekki refsingu mannsins sem hlaut 30 daga skilorðsbundin fangelsisdóm.