
Cremer, sem var 31 árs, var á ferðalagi í óbyggðum Tasmaníu, sem er eyja suður af Ástralíu, í júní 2023 þegar hún hvarf.
CBS greinir frá því að sími Cremer hafi fundist á laugardag skammt frá fossi í regnskógi á eyjunni og er um að ræða fyrstu vísbendingu sem fundist hefur um Cremer á svæðinu síðan hún hvarf.
Það var leitarhópur, sem samanstóð af vinum og fjölskylu Cremer, sem fann símann. Lögregla er með hann til rannsóknar og freistar þess að skoða hvort innihald hans geti varpað ljósi á hvað gerðist. Hefur lögregla einnig sent út leitarhóp á eigin vegum til að leita betur á svæðinu.
Cremer sást síðast þann 17. júní árið 2023 í Waratah, samkvæmt lögreglu, og er talið að hún hafi ekið að Philosopher-fossinum, sem er vinsæll meðal ferðamanna, í þeim tilgangi að fara í stutta göngu um svæðið.
Tilkynnt var um hvarf hennar þann 26. júní 2023 og hófst leit strax daginn eftir. Á þessum árstíma er vetur í Tasmaníu og voru aðstæður á vettvangi erfiðar vegna kulda og úrkomu.
Upphaflega leitin stóð yfir í tvær vikur án þess að nokkrar vísbendingar fyndust um ferðir Cremer, og síðari leitir á næstu árum báru engan árangur. Það hvar síminn fannst bendir til þess að hún hafi hugsanlega farið út fyrir merkta gönguleið.
„Síminn fannst á svæði sem áður hefur verið leitað ítarlega á, og bæði gögn úr símanum og staðsetningin þar sem hann fannst styðja kenningu okkar um að Celine hafi ákveðið að yfirgefa göngustíginn við Philosopher-fossinn til að taka beinni leið aftur að bílnum sínum þegar dagsbirtan fór dvínandi,“ segir Andrew Hanson, fulltrúi lögreglu.
Hann segir að lögregla gangi út frá þeirri kenningu að Cremer hafi misst símann sinn án þess að átta sig á því, orðið áttavillt og villst af leið.