fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
Fréttir

Arkitekt lýsir áhyggjum sínum: „Afleiðingin er sú að nú rísa hús sem enginn hefur beðið um”

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 17. desember 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Skúlason arkitekt hefur áhyggjur af þróun mála þegar kemur að nýbyggingum á stór-Reykjavíkursvæðinu. Hann segir að umræða um húsnæðismál undanfarin ár hafi að mestu snúist um magn og hvernig hægt sé að fjölga íbúðum hratt og hagkvæmt. Á sama tíma hafi stærri myndin gleymst, gæðin.

„Afleiðingin er sú að nú rísa hús sem enginn hefur beðið um, byggingar sem hvorki taka mið af íslenskum aðstæðum né þeim lífsgæðum sem fólk á rétt til,” segir Magnús í grein sem hann skrifar um málið í Morgunblaðið í dag og bætir við að dæmi um þetta megi sjá víða á stór-Reykjavíkursvæðinu. Bendir hann til dæmis á áform um 6-12 hæða byggingar á Ártúnshöfða sem hann segir að verði hvorki barnvænar, mannvænar né skynsamlegar við íslenskar aðstæður.

„Ekki bætir úr skák að hin nýja byggð einkennist af sálarlausum álklæddum fjölbýlishúsum þar sem alla fegurð vantar,” segir hann.

Langir skuggar og vindstrengir

Magnús segir að sem arkitekt hafi hann áhyggjur af þessari þróun.

„Há og ofurþétt byggð hefur neikvæð áhrif sem eru vel þekkt. Hún varpar löngum skuggum á umhverfið, skapar vindstrengi og dregur úr tengingu við göturýmið sem verður gróðurvana og fráhrindandi. Á Íslandi, þar sem sólin er lágt á lofti vegna hnattstöðu og skammdegið er langt, magnast þessi áhrif margfalt. Þegar ný hverfi eru mótuð án þess að taka tillit til birtu og um leið heilsu íbúa eru þau þar af leiðandi í reynd hönnuð gegn fólki, ekki fyrir það,“ segir hann.

Sjálfur kveðst Magnús vera þeirrar skoðunar að byggingar í íbúðahverfum á Íslandi ættu almennt ekki að fara yfir fjórar hæðir. Efsta hæð sé þá inndregin eða í risi til að draga úr skuggamyndun og viðhalda „mannlegum mælikvarða“ eins og hann orðar það.

„Þá er 2-3 hæða raðhúsabyggð æskileg í bland við fjölbýlishús til að gera ráð fyrir barnafjölskyldum. Með þessum hætti er hægt að byggja lágt og þétt með góðri nýtingu lands án þess að fórna birtu eða heilsu. Gróður, sem er mikilvægur þáttur heilsusamlegs umhverfis, þrífst mun betur í slíku skipulagi en í háreistri skuggabyggð. Ekki má heldur gleyma útsýninu sem víða er fagurt en fjallasýnin fer fyrir lítið þegar byggt er fyrir hana,“ segir Magnús.

Neikvæðar breytingar árið 2012

Hann segir síðan að til viðbótar við hæðarvandann eigi breytingar sem gerðar voru á byggingarreglugerð árið 2012 stóran þátt í hnignum húsnæðisgæða.

„Með breytingunni var m.a. heimilað að byggja áður bannaðar einhliða norðlægar íbúðir sem fá takmarkaða eða enga sólarbirtu og jafnvel skerta dagsbirtu stóran hluta árs. Slíkar íbúðir höfðu áður talist óboðlegar og því bannaðar. Þetta var óheillaskref og leyfði hönnun sem stenst hvorki heilsufarsleg sjónarmið né fagurfræðilegar kröfur.“

Magnús segir í grein sinni að svo virðist sem þessi breyting reglugerðarinnar hafi komið til vegna þess að dýpt húsa hefur aukist verulega samkvæmt skipulagi, eða úr sex metrum hér áður fyrr í allt að 20 metra.

„Í slíkri hönnun hafa minni íbúðir oftast dagsbirtu úr einni átt sem getur þá allt eins verið í norður. Stóru íbúðirnar fá hins vegar ríflegan skammt af myrku miðjurými þótt þær njóti birtu til fleiri átta.“

Magnús dregur ekki fjöður yfir það að nauðsynlegt sé að byggja fleiri íbúðir, en þrátt fyrir það megi ekki fórna gæðum fyrir magn. Þétting byggðar og ný byggð þurfi að vera vönduð og manneskjuleg sem styður við hamingjuríkt líf fólks.

„Það eru allflestir að setja ævisparnað sinn í húsnæði svo mikilvægt er að vel takist. Húsnæði á ekki að merkja hámarksnýtingu á lóðum heldur umhverfi sem tryggir birtu, skjól, heilbrigði og mannlega reisn. Það er ábyrgð okkar sem fagaðila að minna á þetta og samfélagsins að krefjast þess.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Dánarbú blindrar og fjölfatlaðrar konu þurfti að borga Tryggingastofnun – Hafði ekki hugmynd um skuldina

Dánarbú blindrar og fjölfatlaðrar konu þurfti að borga Tryggingastofnun – Hafði ekki hugmynd um skuldina
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Súlunesmálið: Margrét ekki svipt föðurarfinum – Hundruð handskrifaðra skilaboða hennar til foreldranna vekja óhug 

Súlunesmálið: Margrét ekki svipt föðurarfinum – Hundruð handskrifaðra skilaboða hennar til foreldranna vekja óhug 
Fréttir
Í gær

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu
Fréttir
Í gær

Metfjöldi sendinga á afsláttardögum

Metfjöldi sendinga á afsláttardögum
Fréttir
Í gær

Sakar Sjálfstæðismenn um hræsni og segir að af öllum lygum stjórnarandstöðunnar sé þessi sú svæsnasta

Sakar Sjálfstæðismenn um hræsni og segir að af öllum lygum stjórnarandstöðunnar sé þessi sú svæsnasta
Fréttir
Í gær

„Við vorum bara litlir hræddir strákar“

„Við vorum bara litlir hræddir strákar“
Fréttir
Í gær

Fór inn í kvennabúningsklefa í Sundhöllinni og handlék kynfæri sín fyrir framan stúlku í sturtu

Fór inn í kvennabúningsklefa í Sundhöllinni og handlék kynfæri sín fyrir framan stúlku í sturtu
Fréttir
Í gær

Hundur Margrétar lifir enn – „Mér er haldið í hengingaról“

Hundur Margrétar lifir enn – „Mér er haldið í hengingaról“