

Konan, Tara Burns, var að fagna fimm ára afmæli dóttur sinnar þegar þær þurftu frá að hverfa eftir að tveir menn, feðgarnir Naveed og Sajid Akram, hófu skothríð með þeim afleiðingum að fimmtán létust og yfir 40 særðust.
Mikil ringulreið skapaðist á vettvangi og varð Tara fyrir því óláni að týna töskunni sinni og farsímanum. Tara ákvað að blása til söfnunar fyrir sjálfa sig á vefnum GoFundMe.
„Rétt fyrir jól hef ég sem einstæð tveggja barna móðir orðið fyrir miklu fjárhagslegu áfalli,“ sagði hún og bætti við að hún þyrfti pening, alls 500 ástralska dollara, til að geta keypt sér nýjan síma.
Söfnunin hefur farið fyrir brjóstið á fólki enda ljóst að fjölmargar fjölskyldur muni eiga um sárt að binda á næstunni vegna ástvinamissis. Stærstu áhyggjur móðurinnar í kringum harmleikinn sé hins vegar týndur sími.
Mail Online segir að einn TikTok-notandi hafi stimplað móðurina „sjálfhverfa“ og „óviðeigandi“ vegna söfnunarinnar.
Þá segist kona vera orðlaus eftir að hún rakst á söfnunina þar sem hún vildi gefa fé til fórnarlamba harmleiksins á Bondi Beach.
„Þessi manneskja hefur áhyggjur af því að hafa týnt handtöskunni sinni í hryðjuverkaárásinni, og ekki nóg með það heldur hefur hún svo miklar áhyggjur að hún setti upp GoFundMe-söfnun svo við getum öll stutt hana. Hvað er eiginlega í gangi?“ sagði hún í TikTok-myndbandi.
Enn sem komið er hafa einungis 20 dollarar safnast fyrir Töru.