
Simon Okoth Aora er 25 ára gamall Keníabúi. Undanfarnar vikur hefur hann dvalist á Íslandi við að kynna bókina Mzungu sem þau Þórunn Rakel Gylfadóttir skrifuðu í sameiningu. Bókin hefur valdið nokkru fjaðrafoki en í henni er lýst illri meðferð á starfsfólki munaðarleysingjaheimilis í Kenía, þá sérstaklega einstæðum mæðrum. Heimilið er rekið af Íslendingi. Simon starfaði við bókhald á umræddu heimili en hann féllst á að ræða við DV daginn áður en hann fór aftur heim eftir vel heppnaða Íslandsdvöl.
Undir lok bókarinnar er lýst skelfilegri reynslu Simons af samskiptum við lögreglu. Segist hann hafa verið neyddur til að bera fáránlegar sakir á Þórunni Rakel svo einnig mætti kalla hana til sams konar yfirheyrstu og grunar hann sterklega að lögreglunni hafi verið mútað. Eigandi heimilisins keyrði Simon á lögreglustöðina og kenísk eiginkona hans var viðstödd yfirheyrslurnar. Þegar Þórunni Rakel bárust þau tíðindi að Simon hefði borið á hana rangar sakir ákvað hún að flýja land í snarhasti og flaug samdægurs frá Naíróbí til Parísar.
„Þremur vélbyssum var miðað á höfuðið á mér á meðan hvein í svipuhöggum hinum megin í herberginu til að þvinga fram játningar annars manns,“ segir Simon og gefur í skyn að augljóslega hafi lögreglan verið að senda honum þau skilaboð að þannig gæti farið fyrir honum ef hann væri ekki samvinnuþýður.
„Ég óttaðist að komast ekki þaðan lifandi nema játa allt. Því annars yrði ég annað hvort skotinn og málið ávallt óupplýst, eða þá að ég yrði lokaður inni fyrir uppspunnar kærur,“ segir Simon.
Í bókinni er því haldið fram að börnin á heimilinu séu barin með prikum og að sumu starfsfólkinu sé þrælað út fyrir laun sem eru langt undir lágmarkslaunum. Unnið sé gegn því að starfsfólk á staðnum komist til náms þótt þeim bjóðist til þess styrkur og reynt sé að ýta undir einangrun þess á heimilinu, meira að segja ungar mæður einangraðar frá börnum sínum.
Aðspurður hvort börn á munaðarleysingjaheimilum í Kenía séu samt ekki betur sett en áður en þau fengu þetta skjól, segir Simon: „Jú, á pappír.“
Sp: En ekki í raunveruleikanum?
„Alls ekki alltaf.”ׅ
Sp: Hvers vegna ekki? Er farið svona illa með þau?
„Ég vil svara þessu almennt. Ríkisstjórnin hefur gefið út tilskipun um að fyrir árslok 2031 verði búið að loka öllum heimilum fyrir munaðarlaus börn. Ástæðan er sú að það hefur verið mikið um mansal á börnum, barnaþrælkun innan heimilianna og mikið ofbeldi gagnvart starfsfólki. Þess vegna hefur ríkisstjórnin sett af stað eftirlit með þeim.“
Simon segir að á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sé að leita frekar aðstoðar hjálparsamtaka til að börnin geti alist upp hjá stórfjölskyldum sínum, til dæmis öfum og ömmum eða frændum og frænkum. Eða að fósturforeldrar sinni þeim. Simon telur þetta betri kosti.
Aðspurður segir Simon að munaðarleysingjaheimili í Kenía séu um 910 talsins og flest því sama marki brennd að vera rekin í ágóðaskyni fyrir eigendurna og börnin meðhöndluð nánast eins og hver annar söluvarningur.
Simon segir þó að mesta áskorun stjórnvalda, með nýju stefnunni, verði að koma í veg fyrir að börn verði misnotuð kynferðislega á fósturheimilum, sem gerist jafnvel þótt þau séu í umsjón ættingja. Hann ítrekar að hann þekki ekki sjálfur til kynferðislegrar misbeitingar á munaðarleysingjaheimilum, hann hafi alls ekki séð slík atvik í sínu starfi á heimilinu. Börn sem ekki eiga foreldra sem vernda þau séu í erfiðri stöðu. Sum börn flýja illa meðferð á fósturheimilum og biðja sjálf um að fá að dveljast á munaðarleysingjaheimilum þar sem veruleikinn er oft mjög harður en á annan hátt.
„Ég var alinn upp í fimm systkina hópi af heittrúuðum foreldrum. Okkur var kennt að sýna góðmennsku og samkennd,“ segir Simon um æsku sína. Foreldrar hans ákváðu að kosta hann til mennta þrátt fyrir að búa við kröpp kjör og fórnuðu þau búpeningi og öðrum eignum til að greiða fyrir skólagöngu hans.
„Síðan kemur þessi pressa að sá sem fær að menntast þarf að borga til baka og fæða fjölskyldu sína. Ég varð því mjög glaður þegar ég fékk þetta starf á heimilinu því ég hafði munna að fæða heima. Og af því að þetta var heimili fyrir þá sem hafa orðið undir í lífinu þá var ég mjög ástríðufullur fyrir því að gera vel þarna.“
Aðspurður segist hann hafa gert sér háar vonir um heimilið en smátt og smátt orðið fyrir vonbrigðum. „Eftir því sem ég kynntist starfseminni nánar þá rann það upp fyrir mér að í vinnuvist voru viljandi ráðnar ungar einstæðar mæður með brothætt bakland og mjög litla menntun.“
Simon segir að konurnar hafi haft lágt sjálfsmat. Stuðlað hafi verið að því að þær einangruðust á heimilinu og þeim talin trú um að heimurinn fyrir utan væri þeim hættulegur.
„Ég var með langmestu menntunina og gerði mér vel grein fyrir því að það var auðvelt að kúga þær, ekki síst út af litlu sjálfstrausti.“
Í samræmi við uppeldi sitt vildi Simon láta gott af sér leiða og hjálpa bæði börnunum og starfsfólkinu við að ná persónulegum árangri og þroska, en þá hafi hann mætt takmörkuðum áhuga eigenda heimilisins. Þá sérstaklega gagnvart stúlkum og konum.
„Það er litið á börnin sem tækifæri til að vekja samúð í skiptum fyrir peninga. Þau eru mynduð í bak og fyrir í skiptum fyrir læk á Facebook.“ Segir hann ógeðfellt að kornung börn séu myndbirt á netinu að þeim forspurðum í því skyni að afla tekna vegna góðsemi fólks.
„Þetta er svo klikkað. Þessi börn eiga sér engan málsvara. Eymd þeirra er til sölu og því svæsnari sem hún er, því meiri peninga aflar hún. Í Kenía eru, líkt og hér á Íslandi, persónuverndarlög en það er eins og forráðamönnum heimilisins finnist í lagi að brjóta þau af því að börnin séu svo fátæk og málstaðurinn svo mikilvægur. Myndir þú vilja að þetta væri gert við barnið þitt? Finnst stuðningsfólki heimilisins þetta vera í lagi? Ég veit að það eru mörg vandamál í Afríku en það bætir ekki vandann að birta svona myndir til að búa til samúð hjá hinum vestræna heimi og fá fólk til að gefa peninga. Ég veit að sumir gera þetta út af peningum eða til að upphefja sjálfa sig en hafið í huga að seinna munu þessi börn vaxa úr grasi og þá verða enn þá þessar myndir til af þeim á netinu.“
Blaðamaður bendir Simon á að hann hafi fengið góðan vitnisburð hjá sumum um heimilið sem hann vann hjá og á Facebook hafi nokkrir farið fögrum orðum um starfsemina og gagnrýnt frásagnir þeirra Þórunnar Rakelar.
„Þau sem tala svona hafa ekki lesið bókina. Kannski er þetta líka fólk sem hefur fjárfest í ímynd þeirra sem reka heimilið og vill ekki að sú ímynd skaddist. Það þekkir ekki aðstæður af eigin raun. En í bókinni birtist bara sannleikur. Svo er það líka þannig að fólk gefur til svona heimila til að líða vel á sálinni og það vill ekki að trú þeirra og draumar um að láta gott af sér leiða molni. Það vill trúa því að ekkert misjafnt eigi sér stað á þessum heimilum og því líður betur með að taka trúanlega þá glæstu sýn sem eigendur heimilanna halda að þeim. Og ef þú lætur fé af hendi rakna til svona heimilis og þú kemur á staðinn til að skoða starfsemina, þá er líklegt að þú blandir ekki mikið geði við fólkið sem býr þar heldur fáir bara upplýsingar í gegnum gestgjafann, eiganda heimilisins.“
Blaðamaður spurði Simon að því hvort hann væri viss um að börn á svona heimilum væru barin með prikum.
„Það er öruggt,“ sagði hann, mjög ákveðinn. „Kannski ekki daglega, en samt mjög oft og fyrir minnstu sakir, ef sakir skyldi kalla.“
Eitt af því sem hefur einkennt umræðuna um bók þeirra Þórunnar Rakelar og Simons er að ýmislegt er útskýrt með menningarmun. Bent hefur verið á að í Kenía sé harðara samfélag og lífsbaráttan erfiðari en tíðkist á Vesturlöndum. Það sé rangt að horfa á munaðarleysingjaheimilin með gleraugum vestræns gildismats.
Simon segir: „Ég spyr þá á móti: Hvort er það menning eða brot á mannréttindum að svipta konur frelsi sínu og hneppa þær í vinnuánauð? Hvar liggja mörk menningar og mannréttinda?“
Hann vill meina að margir hagnýti sér neyð fólks í Kenía til að græða á henni og koma sér þar vel fyrir. Því miður virðist það oft vera þannig að útlendingar afsaki niðrandi framkomu sína í garð bláfátæks fólks á grunni menningar.
„Menning er mjög vítt og teygjanlegt hugtak. Takmörkuð tækifæri kvenna til menntunar er til dæmis ekki menning. Langflestar konur vilja mennta sig en þeim er einfaldlega ekki gefinn kostur á því. Spilling er ekki menning. Kúgun er ekki menning. Mér finnst líka ekki hægt að afsaka þá hegðun að þvinga fram falskar játningar á grundvelli menningarmunar.“

Í upphafi viðtalsins greindi Simon frá miklum hremmingum á lögreglustöð í nágrenni við heimilið. Óttast hann um líf sitt vegna bókarinnar eða fyrir það að stíga fram í viðtali eins og þessu?
„Nei, ég er ekki hræddur við að segja sannleikann. Ég lít á það sem skyldu mína að tala fyrir hönd þeirra sem eiga enga rödd. Eflaust hafa margir verið í minni stöðu, og þá sérstaklega í stöðu starfsstúlknanna þriggja sem fjallað er um í Mzungu. Hver mun tala fyrir þau sem hafa enga rödd ef við erum öll of hrædd við það? Nær væri að fólkið sem í hlut á lýsi því yfir að þau hafi gengið of langt og vilji breyta um stefnu í starfsmannamálum.“
Viðtalið við Simon var tekið á þriðjudaginn í síðustu viku en daginn eftir hélt hann utan til Kenía eftir um mánaðardvöl á Íslandi. Þar er hann að ljúka meistaranámi í fjármálafræði og fær til þess styrk. Simon er staðráðinn í því að nýta menntun sína til að láta gott af sér leiða í þágu hinna fátæku og undirokuðu.
Aðspurður sagðist hann ekki hafa komið til Íslands áður, enda var þetta í fyrsta sinn sem hann steig upp í flugvél og ferðaðist út fyrir landsteinana. Honum hafi fundist mjög kalt í fyrstu en síðan vanist kuldanum.
„Ísland er frábært land, frábær menning og frábært samfélag,“ segir Simon sem hefur virkilega notið dvalarinnar á Íslandi.