
Helga Nína Heimisdóttir er eldri íbúi í Þingholtunm sem hefur orðið illilega fyrir barðinu á Bílastæðasjóði. Helga er með P-merki (merki hreyfihamlaðra) í framrúðinni á bílnum sínum, sem táknar að henni er frjálst að leggja gjaldfrjálst hvar sem er í borginni. Engu að síður hefur bún að undanförnu fengið tvisvar stöðumælasektir. Segir hún að það taki tvær til þrjár vikur að leiðrétta sektirnar, sem hækki fram að því.
Þetta kom fram á Bylgjunni í morgun. „Þeir rukka mann alveg samdægurs, sko. Það vantar ekki. En að fá þetta leiðrétt, það tekur tvær til þrjár vikur,“ segir Helga.
Hún hefur skýringu á því hvers vegna P-merki varnar því ekki að hún fái sekt:
„Það er bíll frá Bílastæðasjóði sem að keyrir um göturnar og tekur myndir af bílum aftan frá. Ég er með einstefnu, ég bý í einstefnu á ská og bílarnir snúa að gangstéttinni. Þeir fara ekki í gangstéttina,“ útskýrir Helga, en starfsmennirnir sem taka myndirnar sjá ekki framan á bílinn þar sem P-merkið blasir við í framrúðunni.
Hún segist hafa sótt um að fá P-merki í afturrúðunni líka en verið synjað um leyfi til slíks. Engar skýringur á þeirri synjun fær hún aðrar en þær að það samrýmist ekki reglum.
Helga segist ekki kunna við að skulda og henni þykir óþægilegt að hafa skuld við Bílastæðasjóð hangandi inni á einkabankanum sínum vikum saman og síðan hækkar sektin.
Fram kom í lok viðtalsins að Bylgjun hyggst freista þessa að fylgja málinu eftir og ræða við Bílastæðasjóð.