

Ahmed, sem er 43 ára ávaxtasali og tveggja barna faðir, laumaðist aftan að öðrum byssumanninum og afvopnaði hann. Hann var skotinn tveimur skotum í handlegg og öxl, en er ekki talinn lífshættulega slasaður.
Söfnun hefur verið hrundið af stað fyrir Ahmed og á mjög skömmum tíma hafa rétt tæplega ein milljón dollara safnast, eða rúmar 120 milljónir króna. Búist er við því að upphæðin muni hækka verulega áður en yfir lýkur.
Bandaríski milljarðamæringurinn Bill Ackman lagði til dæmis hundrað þúsund dollara í söfnunina. Ahmed er múslimi sem fæddist í Sýrlandi, en hann hefur verið búsettur í Ástralíu hin síðari ár.
Jozay Alkanj, frændi Ahmed, lýsti því í viðtölum við ástralska fjölmiðla að Ahmed hafi tjáð honum rétt áður en hann réðst til atlögu að hann myndi að líkindum deyja.
„Hann sagði: „Ég er að fara að deyja. Geturðu sagt fjölskyldu minni að ég hafi dáið við að reyna að bjarga fólki“,“ sagði Alkanj þar sem hann ræddi við fjölmiðla fyrir utan sjúkrahúsið þar sem Ahmed dvelur.
Frændurnir voru á ströndinni til að fá sér kaffibolla og sagði Alkanj að þeir hefðu skyndilega heyrt háværa skothvelli rétt hjá. „Þetta var mjög óhugnanlegt, við földum okkur á bak við bíla og áttuðum okkur á því að byssumennirnir voru rétt hjá okkur.“
Ahmed ákvað að freista þess að læðast aftan að öðrum byssumanninum og reyna að stöðva hann. Hann gerði það og gott betur því honum tókst að ná af honum byssunni og miða á hann.
Árásarmaðurinn hörfaði í kjölfarið, en Ahmed lagði svo byssuna frá sér upp við tré þar sem hann vildi ekki hætta á að lögreglumenn teldu að hann væri annar byssumannanna.
Sem fyrr segir létust að minnsta kosti sextán í skotárásinni, þar á meðal tíu ára stúlka, en tugir eru særðir og sumir þeirra lífshættulega.