
Þrettán ára drengur frá Kaíró, höfuðborg Egyptalands, lést eftir að hafa tekið þátt í samfélagsmiðlaáskorun sem snerist um að éta hráar ósoðnar núðlur. Alls át drengurinn þrjá heila pakka á stuttum tíma en hálftíma síðar fór hann að finna fyrir miklum kviðverkjum auk þess að kasta ítrekað upp.
Ástand hans versnaði síðan hratt og lést hann nokkru síðar.
Í fyrstu var talið að ofnæmi eða matareitrun hefði leitt til dauða drengsins en krufning leiddi í ljós að þarmar hans hefðu að öllum líkindum stíflast af völdum núðlanna.
Ekki er ráðlagt að borða of mikið magn af hráum núðlum því þær geta blásið út í maganum, líkt og þær gera við eldun. Það setur mikið álag á meltingarkerfið eins og raunin varð í þessu sorglega dæmi.