
Þrátt fyrir að hann hafi verið látinn öldum saman trúa margir því að Nostradamus hafi spáð fyrir um dauða Díönu prinsessu, uppgangi Hitlers og árásunum 11. september 2001.
Bókin er sett saman af 942 ljóðum sem innihalda spádóma um framtíðina að margra mati. En ljóðin eru ekki skrifuð þannig að hægt sé að lesa beint úr þeim hvað hann á við, það þarf að túlka þau og það telja ýmsir sig geta gert. Vitað er að biblíutextar höfðu mikil áhrif á Nostradamus og reynsla hans af hungursneyð sömuleiðis.
Sumir telja að spár hans fyrir árið 2025 hafi ræst – sumar að minnsta kosti. Þar á meðal spádómur um „stórflóð“ sem sumir segja að hafi gengið eftir þegar fellibylurinn Melissa reið yfir Jamaíku í lok október og heimili margra fóru á bólakaf. Þá urðu Haítí og Kúba einnig illa úti og létust tugir í hamförunum.
Að því er fram kemur á vef Unilad telja sumir að hann hafi séð árið 2026 í heldur neikvæðu ljósi. Og þeir sem túlka verk Nostradamusar segja að ekkert lát verði á náttúruhamförum og þá verði ekki stigin stór skref í átt að friði í heiminum.
Að sögn Unilad segir í einum af textabálkum spámannsins að „mikill býflugnasveimur“ muni rísa. Túlkendur segja að þetta séu ekki býflugur í eiginlegum skilningi heldur gætu býflugarnar verið tákn um vald og vísað til pólitískra leiðtoga.
Sumir álíta að þarna sé átt við Donald Trump og Vladimir Pútín og að báðir gætu átt sigurför í vændum árið 2026.
Í öðrum textabálki segir Nostradamus að „blóðið muni flæða“ í Ticino, en Ticino er syðsta kantóna Sviss. Í umfjöllun Unilad segir að þegar hann nefnir svæði með nafni hafi það þótt benda til mögulegra átaka í Evrópu, en Ticino liggur að Ítalíu.
Þá er bent á að hann tali um hinn rómverska guð hernaðar, Mars, og telja sumir að þetta sé önnur vísbending um átök árið 2026. „Þrír eldar rísa úr austri á meðan vestrið tapar birtunni í þögn,” segir hann og túlka sumir þetta þannig að þetta bendi til einhvers konar átaka eða árekstra á milli Vestur-Evrópu og Asíu.
Það er því ekki bjart fram undan á árinu 2026 ef spádómar Nostradamusar rætast, eða öllu heldur túlkanir á spádómum hans.