
Piltarnir, Jan Jahanzeb og Sirar Niazal, báðir frá Afganistan, komu til Bretlands sem flóttamenn nokkrum mánuðum áður.
Stúlkan var með símann sinn á upptöku þegar árásin var framin og var myndbandið sýnt í dómsalnum á mánudag.
Í frétt Daily Mail segir að á henni heyrist neyðaróp stúlkunnar þegar ungu mennirnir drógu hana í burtu og réðust á hana. Var hún meðal annars neydd til að framkvæma kynferðislegt athæfi á drengjunum á afskekktum stað. Stúlkan hafði verið í gleðskap með vinum sínum þegar drengirnir drógu hana á brott með sér.
Þegar mennirnir höfðu lokið sér af komst stúlkan undan og bað hún vegfaranda um aðstoð sem fór með hana á næstu lögreglustöð.
Í yfirlýsingu sinni fyrir dómi sagði stúlkan að þessi örlagaríki dagur hafi breytt henni sem manneskju. „Ég er ekki lengur ánægður og áhyggjulaus unglingur. Ég upplifi mig ekki örugga þegar ég fer út og ég er farin að forðast það eins og ég get,“ sagði stúlkan og bætti við að málið hefði líka haft mikil áhrif á nám hennar.
Jahanzeb var dæmdur í tíu ára og átta mánaða fangelsi en Niazal í níu ára og tíu mánaða fangelsi. Lögmaður Niazal, Joshua Radcliffe, sagði fyrir dómi að myndbandið sem sýnt var væri hræðilegt. „Ég er ekki í nokkrum vafa að ef almenningur fengi að sjá þetta, þá yrðu óeirðir.“
Sylvia de Bertodano, dómari í málinu, var ómyrk í máli og sagði að drengirnir hefðu brugðist „sönnum flóttamönnum” sem vilja leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Þeir ættu með réttu að finna til djúprar og varanlegrar skammar.
„Ég get skilið það að þið komið frá landi þar sem menningarlegir siðir eru töluvert frábrugðnir þeim sem tíðkast í Bretlandi. En ég fellst ekki á að hvorugur ykkar skilji ekki hvað felst í hugtakinu samþykki. Í þessu máli var ykkur báðum algjörlega ljóst að þið voruð að taka barn frá vinum sínum, þrátt fyrir harðar mótbárur, og fara með hana á stað þar sem enginn gat séð til, í þeim tilgangi að fremja þessa árás,“ sagði Sylvia en fyrr um kvöldið hafði unga stúlkan verið í gleðskap með vinum sínum.