fbpx
Laugardagur 13.desember 2025
Fréttir

Ársæll segir hefndarhug búa að baki: „Það er engin önnur rökrétt skýring“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 4. desember 2025 07:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, er ómyrkur í máli í samtali við Morgunblaðið í dag, en eins og greint var frá í gær verður hann ekki endurskipaður í starf skólastjóra.

Eins og frægt varð lenti Ársæll í hatrammri deilu við Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálamálaráðherra og formann Flokks fólksins, í byrjun árs útaf týndu skópari barnabarns ráðherrans. Átti ráðherrann að hafa hellt sér yfir Ársæl í símtali og gengu ásakanirnar á víxl. Meðal annars var ýjað að því að Inga hefði hótað Ársæli því að hún hefði ítök innan lögreglunnar.

Ársæll sendi tölvupóst á starfsfólk skólans í gær þar sem hann greindi frá þessu og sendi Flokkur fólksins kaldar kveðjur. Hann á tvö ár í eftirlaun þegar skipunartími hans rennur út.

Sjá einnig: Skólameistarinn sem deildi við Ingu Sæland um strigaskó ekki endurskipaður – Sendir Flokki fólksins kaldar kveðjur – „Ævistarfi mínu finnst mér lítill sómi sýndur“

Ársæll segist við Morgunblaðið ekki velkjast í vafa um að hefndarhugur búi að baki þeirri ákvörðun að auglýsa stöðu hans og endurráða hann ekki án auglýsingar eins og venja er. Vísar Ársæll í fyrrnefnt mál í janúar.

„Maður getur ekki annað en tengt [þetta] henni og Flokki fólksins, það er engin önnur rökrétt skýring á þessari óvæntu og óvanalegu ákvörðun,“ hefur Morgunblaðið eftir Ársæli sem bendir jafnframt á að hann hafi ekki fengið neinar aðfinnslur varðandi störf sín eða áminningar.

Hér má lesa póstinn sem Ársæll sendi í gær:

Kæra samstarfsfólk

Það er með miklum trega og með sorg í hjarta að ég skrifa ykkur þennan tölvupóst til að upplýsa ykkur um að Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra hefur látið birta mér að hann óski ekki eftir kröftum mínum sem skólameistara. Þvert á allar hefðir og í ljósi þess að undanfarið hefur ráðherra endurskipað aðra skólameistara og nýlega ráðið í lausar stöður er augljóst hvað liggur að baki ákvörðun Guðmundar Inga og Flokks fólksins. Ég hef aldrei verið áminntur í starfi eða fengið ákúrur frá ráðherra menntamála þá áratugi sem ég hef starfað sem skólameistari og ætíð haldið rekstri skólans innan fjárlagaheimilda.

Skipunartími minn rennur út um mitt næsta ár eða tveimur árum áður en ég kemst á eftirlaunaaldur og eru þá rétt 40 ár síðan ég brautskráðist sem kennari úr Kennaraháskóla Íslands. Ævistarfi mínu finnst mér lítill sómi sýndur og þakklætið rýrt en ráðherra afhenti mér ekki sjálfur tilkynninguna heldur fékk starfsfólk sitt til að sjá um það. Skýring þeirra á þessari ákvörðun ráðherra er sú að ráðherra hefði heimild til að gera þetta.
Ég er nú í þeirri skrýtnu stöðu að vera forstöðumaður fyrir ríkisstofnun þar sem ráðherra hefur í raun lýst yfir vantrausti á störf mín og ég því nánast umboðslaus.

Sjálfur hefði ég kosið að starfa áfram við skólann við að efla okkar góða starf og styrkja enda margar áskoranir framundan. Vinnustaðurinn okkar er frábær, starfsandinn góður og fagmennska í fyrirrúmi. Þykir mér afar leitt að vera hent frá borði með þessum hætti. Á allri minni ævi hef ég ekki kynnst betri vinnustað en nú skilja leiðir.

Bestu kveðjur

Ársæll

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kemur Gyokeres til varnar
Salah snýr aftur
Fréttir
Í gær

Mohamad Kourani kominn á almennan gang á Hólmsheiði innan um tvo Alzheimer-sjúklinga

Mohamad Kourani kominn á almennan gang á Hólmsheiði innan um tvo Alzheimer-sjúklinga
Fréttir
Í gær

Bjóða fasteignaeigendum að fá heilt ár af leigutekjum greitt út strax

Bjóða fasteignaeigendum að fá heilt ár af leigutekjum greitt út strax
Fréttir
Í gær

Kallar eftir skýrari afstöðu stjórnvalda – „Sitji ekki hjá sofandi að feigðarósi og láti listafólk um þetta alltaf!“

Kallar eftir skýrari afstöðu stjórnvalda – „Sitji ekki hjá sofandi að feigðarósi og láti listafólk um þetta alltaf!“