

Eins og greint var frá fyrr í dag mun Sýn hætta að senda út sjónvarpsfréttir um helgar og nokkrum starfsmönnum fréttastofunnar hefur verið sagt upp. Forstjóri fyrirtækisins Herdís Fjeldsted segir rekstur fréttastofu Sýnar að verða ósjálfbæran og koma verði til aðgerðir af hálfu ríkisvaldins til að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Þórhallur Gunnarsson fyrrum stjórnandi hjá fyrirtækinu gagnrýndi Herdísi fyrr í dag og sagði fréttastofuna skila fyrirtækinu miklum tekjum og það væri galið hjá henni að tengja stöðuna við áhrif samfélagsmiðla, streymisveitna og RÚV. Í nýjum pistli um stöðuna gagnrýnir Þórhallur formann Blaðamannafélags Íslands fyrir að taka heilshugar undir með Herdísi og formaðurinn eigi ekki að taka orðum forstjórans sem sannleik.
Vísar Þórhallur í nýja pistlinum í viðtal Mbl.is við Sigríði Dögg Auðunsdóttur formann Blaðamannafélags Íslands. Þar er haft eftir henni að stjórnvöld og almenningur verði að átta sig á því að stuðningur til einkarekinna miðla sé ekki eins og stuðningur til annarra einkafyrirtækja. Þetta sé ekki rekstrarstuðningur þar sem fyrirtækin séu ekki rekin í hagnaðarskyni heldur af hugsjón og í þágu almennings. Rekstur fjölmiðla sé ósjálfbær.
Þórhallur segir um viðtalið:
„Forstjóri Sýnar hendir nánast fréttastofunni undir lestina og segist muni skerða fréttaflutning ef stjórnvöld komi ekki til hjálpar. Að fréttastofan sé vandamálið í rekstrinum og þau geti ekki sinnt þessu hugsjónastarfi lengur. Sigríður Dögg, formaður Blaðamannafélagsins kemur svo í viðtöl og lætur sem þetta sé sannleikurinn sjálfur.“
Þórhallur andmælir þeim orðum Sigríðar Daggar að rekstur fjölmiðla sé ósjálfbær:
„Fréttastofa Sýnar, Vísir og Bylgjan er alls ekki ósjálfbær heldur vel reknir miðlar sem skila miklum tekjum.“
Þórhallur spyr hvort Sigríði Dögg sé alvara með orðum sínum um að einkareknir fjölmiðlar séu ekki reknir í hagnaðarskyni heldur af hugsjón og í þágu almennings: