fbpx
Föstudagur 28.nóvember 2025
Fréttir

Jón Steinar tekur Símon Grimma til bæna fyrir sératkvæðið – „Í reynd er lögbrot hans alvarlegra“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 28. nóvember 2025 19:30

Jón Steinar Gunnlaugsson og Símon Sigvaldason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður og fyrrum hæstaréttardómari gagnrýnir Símon Sigvaldason dómara við Landsrétt harðlega fyrir sératkvæði hans í kynferðisbrotamáli þar sem Albert Guðmundsson landsliðsmaður í knattspyrnu var ákærður. Tveir af þremur dómurum í málinu sýknuðu Albert en Símon, sem var sá þriðji, vildi sakfella. Segir Jón Steinar sératkvæðið einfaldlega fela í sér lögbrot.

Símon er oftast kallaður Símon Grimmi en hann hlaut viðurnefnið vegna þessa háa hlutfalls mála sem hann dæmdi í sem enduðu með sakfellingu ákærðu. Símon vildi sakfella Albert einkum á grunni þessi að hann teldi framburð konunnar, sem Albert var ákærður fyrir að brjóta á, trúverðugri en framburð Alberts.

Símon Grimmi vildi dæma Albert í fangelsi í 30 mánuði – „Samt sem áður ekki ótrúverðugur í sjálfu sér“

Í athugasemd á Facebook gagnrýndi Jón Steinar sératkvæði Símonar og sagði hann ekki þekkja þá meginreglu að sanna þurfi sekt til að sakfella sakborning og rifjaði síðan upp viðurnefni dómarans.

Jón Steinar gefur sératkvæði Símonar Grimma langt nef – „Að sanna þurfi sök á sakborning til að unnt sé að sakfella hann“

Ólíkindi

Jón Steinar virðist hafa kynnt sér dóm Landsréttar í málinu og bætir enn frekar í gagnrýnina á Símon í pistli á Facebook sem hann birti nú í kvöld:

„Svo stóð á að brotaþoli og ákærði voru ein til frásagnar um atvikin að hinu meinta broti. Lá fyrir af beggja hálfu að kynmök höfðu átt sér stað. Þau gáfu hins vegar mismunandi framburð um atvikin og bar stúlkan að þau hefðu haldið áfram eftir að hún hafi verið orðin þeim afhuga. Pilturinn neitaði þessu og sagðist hafa hætt strax og hann varð þess var að stúlkan vildi hverfa frá.“

Jón Steinar víkur því næst að mati Símonar á sönnunargildi framburða í málinu en ljóst er að Símon er ekki eini dómarinn í kynferðisbrotamálum sem hefur horft til framburða í slíkum málum en Jón Steinar er ekki sáttur við að það sé gert:

„Allir sem fást við svona mál vita að mat á trúverðugleika aðila, þegar þeir lýsa atvikum á mismunandi leið, er afar varhugavert til sönnunar á atvikum í málum af þessu tagi. Stafar það auðvitað af því að báðir eru hlutdrægir í lýsingum sínum. Eins og menn vita hvílir sönnunarbyrðin um hina refsiverðu háttsemi á ákæruvaldinu. Vafa ber að meta hinum ákærða í hag. Stafar það af því að dómstólum er óheimilt að sakfella ákærðan mann nema sökin sé vafalaus. Þarf varla að hafa mörg orð um harminn sem hann og aðstandendur hans þurfa að þola sé hann dæmdur að ósekju.“

Reglan

Jón Steinar segir ljóst að Símon hafi ekki farið eftir meginreglum við meðferð sakamála og segist ekki sammála dómaranum um framburði Alberts og brotaþolans:

„Dómarinn sem skilaði þessu sératkvæði lét þessa meginreglu ekki aftra sér. Hann sagðist meta framburð stúlkunar henni í hag, svo varhugaverð sem slík afgreiðsla er hjá manni sem fer með dómsvald í refsimálum. Og ekki nóg með það. Við lestur á atvikum málsins er ljóst að framburður piltsins var að mun trúverðugri en stúlkunnar. Framburður hans hafði haldist óbreyttur frá upphafi en hennar ekki. Hún bar á mismunandi vegu um ýmis atvik málsins við meðferð þess.“

Hörðustu orðin í garð Símonar geymir Jón Steinar hins vegar þangað til í lokin:

„Í sjálfu sér getur ekki nokkur maður fullyrt um atvikin að kynmökunum. Vegna reglunnar um sönnunarbyrðina er dómurunum skylt að sýkna sakborninginn ef sökin sannast ekki. Þessa reglu hljóta allir dómarar að þekkja. Mikla harmleiki hefur leitt af röngum dómum sem kveðnir hafa verið upp án fullnægjandi sönnunarfærslu. Sá dómari sem gerist sekur um slíkt, þó að í sératkvæði sé, ætti að leita sér að öðru starfi. Í reynd er lögbrot hans alvarlegra heldur en brotið sem ákært var fyrir í málinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Helgi segir Samhjálp vera góða nágranna – „Aumingi er sá sem níðist á þeim sem eru minni máttar“

Helgi segir Samhjálp vera góða nágranna – „Aumingi er sá sem níðist á þeim sem eru minni máttar“
Fréttir
Í gær

Viðsnúningur í Saurbæjarprestkallsmálinu – Séra Kristinn mátti ekki reikna með að boð um nýtt embætti stæði enn

Viðsnúningur í Saurbæjarprestkallsmálinu – Séra Kristinn mátti ekki reikna með að boð um nýtt embætti stæði enn
Fréttir
Í gær

Vitor fékk þriggja ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot

Vitor fékk þriggja ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot
Fréttir
Í gær

Inga gefur lítið fyrir blammeringar Einars – „Þetta er rangt“

Inga gefur lítið fyrir blammeringar Einars – „Þetta er rangt“