fbpx
Föstudagur 28.nóvember 2025
Fréttir

Sakar Stefán Einar um að misnota Morgunblaðið – „Þetta lið hlær að ykkur“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 28. nóvember 2025 18:00

Stefán Einar Stefánsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson helsti forvígismaður Samstöðvarinnar sakar Stefán Einar Stefánsson stjórnanda Spursmála á Mbl.is og blaðamann á Morgunblaðinu um að misnota fjölmiðilinn sem hann starfar hjá til að koma skoðunum sínum á framfæri. Vísar þá Gunnar Smári einna helst til skoðana Stefáns Einar á Palestínumönnum sem sá fyrrnefndi segir hatursfullar.

Gunnar Smári heldur þessu fram í pistli í umræðuhópnum Rauða þræðinum á Facebook. Tilefnið er viðtal Stefáns Einars við Guðrúnu Hafsteinsdóttur formann Sjálfstæðisflokksins í nýjasta þætti Spursmála sem fór í loftið í dag.

Í þættinum ræddu Stefán Einar og Guðrún ástand innflytjendamála sem sá fyrrnefndi sagði vera í miklum ólestri og á því bæri Sjálfstæðisflokkurinn mikla ábyrgð eftir að hafa farið með þann málaflokk í áraraðir en Guðrún var einmitt dómsmálaráðherra á síðasta kjörtímabili. Vildi Stefán Einar meina að landamæri Íslands væru galopin án þess þó að rökstyðja þá fullyrðingu neitt nánar eða skilgreina hvað það þýðir. Þegar Guðrún andmælti því þá svaraði Stefán Einar:

„Þau hafa verið galopin.“

„Nei,“ svaraði Guðrún.

„Jú,“ svaraði Stefán Einar um hæl.

„Við höfum verið með stjórn á landamærunum,“ andmælti Guðrún.

„Við höfum ekki verið með neina stjórn á landamærunum,“ svaraði Stefán Einar.

Hamas

Vísaði Stefán Einar þá í fréttir af liðsmanni ISIS hryðjuverkasamtakanna sem handtekinn var á Akureyri og rekinn úr landi og fréttir Morgunblaðsins af stuðningsmönnum Hamas sem hefðu verið á Íslandi.

Því næst reyndi Guðrún að sannfæra Stefán Einar um að hún hefði náð góðum árangri sem dómsmálaráðherra við að koma skikki á útlendingamál en sá síðarnefndi sannfærðist ekki og talið barst þá að Palestínumönnum á Íslandi:

„Þið senduð heila þotu til Palestínu og fluttuð inn stóran hóp fólks sem þið vitið engin deili á. Fjölskyldusameiningar enn í fullum gangi, þetta lið hlær að ykkur.“

Guðrún sagði þá að reglur um fjölskyldusameiningar hefðu verið þrengdar:

„Ég var alfarið á móti því að hér væri verið að taka hér framhjá eða fólk hingað af því þú ert að nefna hér hópa frá Palestínu. Hvað þá þegar einstaklingar voru hér að fara að landamærunum að Egyptalandi til þess að ná fólki út sem enginn vissi deili á. Þessi hópur sem kom ísraelska leyniþjónustan var búin að fara yfir þann hóp og svo framvegis. Búin að skanna það fólk sem hingað kom en það gengur náttúrulega alls ekki að hér séu einhver samtök sem kalla sig frjáls félagasamtök að þau séu einhvern veginn með mútugreiðslum og öðru að taka fólk yfir landamæri sem eru lokuð og koma því fólki hér inn í landið. Það gengur engan veginn.“

Mútur

Þarna er Guðrún væntanlega að vísa til þess að hópur Íslendinga fór til Egyptalands gagngert til að koma hópi Palestínumanna til landsins en flestir þeirra áttu ættingja hér á landi og þar með rétt til fjölskyldusameiningar.

Þegar Stefán spurði Guðrúnu hvort þarna hefði mútugreiðslum verið beitt dró Guðrún aðeins úr fyrri orðum sínum:

„Ja, ég ætla að leiða að því líkum. Þegar fólk er hér með einhverjar safnanir í gangi og fer með peninga út og er að greiða fyrir ákveðna þjónustu eins og einhver sagði, á einhverri skrifstofu í Kaíró eða hvar sem það nú var. Fyrir hvað ertu að borga mjög háar fjárhæðir?“

Ræddu þau síðan töluvert málefni fatlaðs drengs frá Palestínu sem til stóð að vísa úr landi en Guðrún stöðvaði það í ráðherratíð sinni. Sagðist Guðrún í raun vart hafa getað gert annað vegna andmæla Guðmunda Inga Guðbrandssonar, þáverandi félagsmálaráðherra, og beiðni Bjarna Benediktssonar þáverandi forsætisráðherra um að fresta brottflutningnum. Vildi Stefán Einar meina að Guðrún hefði átt að neita að verða við þessu. Sagðist Guðrún einnig hafa viljað kanna ásakanir Guðmundar Inga um að lögreglan hefði verið að brjóta mannréttindi drengsins en svo hefði ekki reynst vera og tók undir með Stefán Einari um að þetta hefði greinilega verið:

„Tóm þvæla.“

Grandi

Guðrún vildi meina að best væri að stöðva nánast alfarið komu hælisleitenda til Íslands áður en of mikill skaði væri skeður en Stefán Einar vildi meina að það væri of seint og vísaði í nýlegar fregnir af ungum manni frá Palestínu sem birtist í myndbandi sem tekið var á Granda í Reykjavík, en þar sást hann veifa skammbyssu og hríðskotabyssu sem síðar kom í ljós að voru eftirlíkingar. Ungi maðurinn var handtekinn ásamt félögum sínum og hald lagt á byssurnar og eiga þeir yfir höfði sér ákæru fyrir brot á vopnalögum:

„Hvernig heldurðu að almenningi verði um þegar hann áttar sig á að hér hefur hreiðrað um sig fólk sem er reiðubúið til að koma svona fram við samfélag sem er búið að veita því skjól?“, spurði Stefán Einar.

Svaraði Guðrún að væntanlega myndi maðurinn á myndbandinu hljóta refsingu en Stefán Einar var ekki sáttur við það svar:

„Ég sem skattgreiðandi mun bara borga fyrir hann á fimm stjörnu hóteli upp á Hólmsheiði eða í nýja 20 milljarða fangelsið sem þið ætlið að reisa. Af hverju sendið þið þennan mann ekki upp í flugvél til síns heima og segið bara: Takk fyrir ekkert.“

Guðrún sagði þá að málið myndi væntanlega enda þannig en hún vissi þó ekkert um stöðu þessa tiltekna einstaklings. Hvort hann væri hælisleitandi eða með alþjóðlega vernd. Vildi Stefán Einar meina að það skipti ekki máli og að stjórnvöld ættu ekki að vísa í alþjóðlega sáttmála, sem Ísland væri bundið af, í svona málum heldur leyfa íslenskum almenningi að njóta vafans.

Sturlaður

Stefán Einar ræddi í lengra máli við Guðrúnu um útlendingamál en hér hafa verið rakin helstu ummæli hans sem sneru að fólki frá Palestínu sérstaklega. Gunnar Smári tiltekur ekki nein sérstök ummæli Stefáns Einars sem fóru fyrir brjóstið á honum en vill meina að þarna hafi sá síðarnefndi verið að misnota aðstöðu sína til að koma andúð sinni á Palestínumönnum á framfæri:

„Morgunblaðið hefur kannski enga æru lengur, en hvernig sættir starfsfólk blaðsins sig við að sturlaður síonisti og stuðningsmaður þjóðarmorðs stýri umræðu um innflytjendamál, noti vettvang Moggans til að básúna eitrað hatur sitt á Palestínumönnum. Og hvers vegna situr formaður Sjálfstæðisflokksins undir þessu og tekur að einhverju leyti undir þennan málflutning sem gengur þvert á samþykktir Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegra dómstóla og stofnana, allra mannúðarsamtaka í heiminum … allra nema þeirra sem framið hafa þjóðarmorð. Ég hvet fólk til að hlusta á þetta samtal. Það skýrir dauða Moggans og vanda Sjálfstæðisflokksins. Stefáni virðist ómögulegt að ræða nokkurt mál af viti, blindaður af hatri og mannfyrirlitningu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Árni var ranglega sakaður um svívirðilegan glæp – „Hrein samviska var áttavitinn minn“

Árni var ranglega sakaður um svívirðilegan glæp – „Hrein samviska var áttavitinn minn“
Fréttir
Í gær

Dagur sendir Sjálfstæðisflokknum eitraða pillu: „Línan fengin frá Mogganum og kampavínshlaðvörpum af hægri kantinum“

Dagur sendir Sjálfstæðisflokknum eitraða pillu: „Línan fengin frá Mogganum og kampavínshlaðvörpum af hægri kantinum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögfræðingurinn í einangrun og hefur verið yfirheyrður stíft

Lögfræðingurinn í einangrun og hefur verið yfirheyrður stíft
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur Ingi í framboð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar

Guðmundur Ingi í framboð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt fór í háa loft milli leigjanda og leigusala – Ásakanir um hótanir, reykingar og rauða málningu

Allt fór í háa loft milli leigjanda og leigusala – Ásakanir um hótanir, reykingar og rauða málningu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Neysluvatnið rennur í gegnum gamlar asbestlagnir

Neysluvatnið rennur í gegnum gamlar asbestlagnir