fbpx
Föstudagur 28.nóvember 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Engin leið að hætta! Guðlaugur Þór íhugar að renna sér út á hála ísinn og leggja ferilinn að veði

Eyjan
Föstudaginn 28. nóvember 2025 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erfitt er að trúa fréttum sem birtar hafa verið um að Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður og fyrrum ráðherra, hyggist taka þátt í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í janúar nk. og skora þannig Hildi Björnsdóttur á hólm, en hún er ákveðin í að sækjast áfram eftir efsta sæti flokksins í borginni.

Orðið á götunni hefur verið að Guðlaugur Þór sé of reyndur og klókur stjórnmálamaður til að hella sér nú út í slík átök. Hólmgöngur hans hafa tekist misvel og sumar misheppnast með öllu. Skemmst er að minnast þess þegar hann bauð sig fram á móti Bjarna Benediktssyni í formannskosningu og tapaði með 40 prósent atkvæða á móti 60 prósentum Bjarna eftir mikla smölun á báða bóga og átök sem skildu eftir sig sár um allan flokkinn og hafa enn ekki gróið.

Guðlaugur Þór hefur ítrekað tekist á við fylkinguna kringum Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Jafnan hefur hann haft betur en þau átök hafa klofið flokkinn í höfuðborginni. Í þingkosningum fyrir einu ári leiddu þau Áslaug Arna hvort sinn listann þar sem flokkurinn hlaut 17 prósenta fylgi í Reykjavík. Það var nú allt of sumt. Síðan hefur hagur ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og Viðreisnar, farið batnandi en gengi Sjálfstæðisflokksins haldið áfram að dala undir nýrri forystu Guðrúnar Hafsteinsdóttur.

Orðið á götunni er að Guðlaugur Þór sé að fást við svipaðan vanda og sumir íþróttamenn eiga við að glíma – að kunna ekki að hætta þegar ferlinum er í raun og veru lokið. Margur knattspyrnumaðurinn hefur til dæmis þráast við að halda áfram þar til hann komst ekki lengur í liðið og endaði utan liðsins í vonbrigðum og fýlu. Það er engin leið að hætta, er stundum sagt.

Leiðtogaprófkjör mun fara fram hjá flokknum í lok janúar og síðan mun kjörnefnd raða í önnur sæti á lista flokksins til borgarstjórnar næsta vor. Margir flokksmenn hafa gert sér vonir um að fram fari heiðarleg kosning milli Hildar og nýrra frambjóðenda en ekki einvígi milli Hildar, sem er tæplega fertug kona, og Guðlaugs Þórs, sem er tæplega sextugur síðmiðaldra stjórnmálakarl á lokametrum sínum á pólitíska sviðinu. Komi til þess mun hrikta í flokknum í Reykjavík – og reyndar hringinn í kringum landið.

Sá sem verður sigurvegari í leiðtogaprófkjöri flokksins í Reykjavík þarf í kjölfarið að leysa erfið verkefni. Fyrst þarf að freista þess að sameina stríðandi fylkingar flokksmanna í borginni. Það er ærið verkefni og að margra mati óvinnandi. Listi flokksins verður að taka mið af ólíkum skoðunum helstu flokksbrota. Þá þarf að heyja kosningabaráttu í andrúmslofti sem er Sjálfstæðisflokknum mjög mótdrægt á landsvísu á sama tíma og sumir aðrir flokkar sópa til sín fylgi samkvæmt öllum skoðanakönnunum. Byrinn hefur ekki verið með Sjálfstæðisflokknum og fátt sem bendir til þess að það muni breytast á næstu vikum og mánuðum fram á næsta vor.

Öflugur stuðningur sem Miðflokkurinn mælist nú með er helsta ógnin við útkomu Sjálfstæðisflokkinn á vori komandi. Verði uppgangur Miðflokksins varanlegur næstu mánuðina má gera ráð fyrir því að Miðflokkurinn taki fylgið beint af Sjálfstæðisflokknum og komi í veg fyrir að hann geti rétt úr kútnum í höfuðborginni. Miðflokkurinn tekur fylgi sitt frá Framsókn og Sjálfstæðisflokki en tæplega öðrum. Ekki er af miklu að taka hjá Framsókn þannig að fylgisaukningin mun koma beint frá Sjálfstæðisflokknum.

Orðið á götunni er að í borgarstjórn Reykjavíkur muni þessir þrír stjórnarandstöðuflokkar vera tilbúnir að vinna saman – en aðrir flokkar geti ekki hugsað sér samstarf við þá eftir komandi kosningar. En þeir sækja fylgi sitt í sama kjósendahóp og munu því taka fylgi hver frá öðrum. Ekki þyrfti að koma á óvart þótt Framsókn fengi engan mann kjörinn í Reykjavík og tapaði þar með fjórum borgarfulltrúum. Spurningin er svo hvernig fylgi muni skiptast milli Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem mælast svipað stórir í skoðanakönnunum á landsvísu um þessar mundir. Verði Miðflokkurinn stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn mun hann gera tilkall til þess að leiðtogi hans verði einnig leiðtogi stjórnarandstöðunnar í borginni næstu fjögur árin.

Orðið á götunni er að framkoma Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjórnarflokkana og aðra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur hafi verið með þeim hætti að undanförnu að ekki þurfi að gera ráð fyrir því að þeir geti hugsað sér samstarf við flokkinn að loknum sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Því bendir flest til þessa að Sjálfstæðisflokkurinn verði einangraður með núverandi stjórnarandstöðuflokkum enn um sinn.

Orðið götunni er að enn eitt valdalaust kjörtímabil í minnihluta bíði Sjálfstæðisflokksins í borginni næstu fjögur árin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Hrútskýring eða listin að gefa óumbeðnar útskýringar

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Hrútskýring eða listin að gefa óumbeðnar útskýringar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gallupkönnun: Yfirgnæfandi meirihluti vill rannsóknarnefnd á störf sérstaks saksóknara í hrunmálum

Gallupkönnun: Yfirgnæfandi meirihluti vill rannsóknarnefnd á störf sérstaks saksóknara í hrunmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Allar hinar Nínurnar

Nína Richter skrifar: Allar hinar Nínurnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Taugaveiklun og óskhyggja stjórnarandstöðunnar

Orðið á götunni: Taugaveiklun og óskhyggja stjórnarandstöðunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Sögueyjan Sikiley

Thomas Möller skrifar: Sögueyjan Sikiley
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón Guðni Ómarsson: Ísland mjög vel sett miðað við önnur lönd

Jón Guðni Ómarsson: Ísland mjög vel sett miðað við önnur lönd