

Blaðið greinir frá því í dag að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi lagt fram tillögu sem miðar að því að lækka veikindahlutföll starfsmanna borgarinnar niður í 5% að hámarki. Verður tillagan tekin fyrir næstkomandi þriðjudag.
Morgunblaðið hefur áður greint frá því að veikindahlutfall starfsmanna hafi numið 7,5 prósentum árið 2024 og kostnaður vegna þess numið 6,2 milljörðum króna.
Hildur segir við Morgunblaðið að veikindarétturinn sé gríðarlega mikilvægur þeim sem veikjast, en því miður bendi margt til þess að einhverjir misnoti hann.
Hildur segir vandann sérstaklega mikinn í leikskólum borgarinnar þar sem veikindahlutfallið nái 10 prósentum. Óheilnæmt skólahúsnæði og starfsumhverfi sem starfsfólki og börnum sé boðið upp á komi þar eflaust við sögu.
„Maður hefur hins vegar séð mörg dæmi þess hvernig öflugir stjórnendur hafa náð þessum hlutföllum rösklega niður með skýrum aðgerðum,“ segir Hildur við Morgunblaðið þar sem nánar er fjallað um málið.