

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfum fyrrverandi sendiherra, en ágreiningur í málinu leit að rétti sendiherrans til yfirvinnugreiðslna vegna fastrar yfirvinnu.
Fram kemur í dómi að viðkomandi starfaði ýmist erlendis eða hér á Íslandi, en yfirvinnugreiðslur fóru eftir því hvar hann var staddur og hvort hann hefði mannaforráð eða ekki.
Yfirvinna var greidd eftir einingakerfi. Árið 2012 var viðkomandi starfandi á Íslandi, ekki með mannaforráð, og fékk þá greiddar 17 launaeiningar fyrir fasta yfirvinnu. Það ár var hann sendur erlendis og var þar til ársins 2017. Þá fékk hann engar launaeiningar vegna yfirvinnu enda hefur það tíðkast í framkvæmd að starfsmenn utanríkisþjónustunnar fái ekki sérstaklega greitt fyrir yfirvinnu þegar þeir halda til starfa erlendis.
Árið 2017 sneri sendiherrann aftur heim og tók þá við starfi sem ekki fylgdu mannaforráð. Þá fékk hann greiddar 20 launaeiningar fyrir fasta yfirvinnu. Taldi hann að þarna hefði verið brotið gegn rétti sínum enda hefði hann átt rétt á 33 launaeiningum ef hann hefði mannaforráð. Sendiherrann taldi að hann hefði með réttu átt tilkall til stöðu hér heima með mannaforráð, enda hefði hann farið með mannaforráð úti.
Síðan var hann aftur sendur út og starfaði erlendis 2022-2024. Eins og áður segir þá er ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu þegar sendiherrar starfa erlendis svo hann missti 20 launaeiningarnar þegar hann fór út. Hann taldi að íslenska ríkinu hefði verið óheimilt að svipta hann launaeiningum.
Hann taldi ríkið hafa brotið gegn stjórnarskrá, starfsmannalögum, lögum um utanríkisþjónustu, kjarasamningi og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Sendiherrann krafði ríkið um rúmlega 11,4 milljónir með dráttarvöxtum.
Dómari rakti að launagreiðslur sendiherrans á árunum sem um ræddi hefðu verið í samræmi við ákvörðun kjararáðs um laun og starfskjör sendiherra frá árinu 2017. Kjararáð ákvað að sendiherrar fengju greidd laun samkvæmt sama launaflokki hvort sem starfsstöð þeirra væri hér á landi eða erlendis. Dómari benti á að ekkert kæmi þó í veg fyrir að hægt sé að ákvarða sérstaklega yfirvinnu við störf sendiherra hérlendis til viðbótar mánaðarlaunum.
Þegar sendiherrann í máli þessu fluttist út árið 2017 hafði hann ekki mannaforráð og hafði fengið 17 launaeiningar greiddar vegna fastrar yfirvinnu. Þegar hann sneri aftur hafði hann, eins og áður, ekki mannaforráð en fékk þá 20 launaeiningar. Sendiherrann vissi eins vel að ekki væru greiddar einingar vegna yfirvinnu þegar sendiherrar eru starfandi á erlendri grundu.
Loks rakti dómari að sendiherrann hefði tilgreint einstaklinga sem hann taldi gögn benda til að hafi notið ríflegri kjara en hann sjálfur við heimkomu til starfa í ráðuneyti. Hann hafi þó ekki fært sönnur á að sömu sjónarmið eigi við um viðkomandi aðila og hann sjálfan. Þó hefði honum verið í lófa lagið að kalla þessa einstaklinga til skýrslugjafar fyrir dómi til að upplýsa um eðli starfa sinna og fyrirkomulag launakjara.
Dómari hafnaði öllum málsástæðum sendiherrans en bætti við að jafnvel ef fallist hefði verið á einhverja þeirra þá hefði íslenska ríkið engu að síður verið sýknað út af tómlæti.
Í dóminum stendur:
„Öllu framangreindu til viðbótar liggur fyrir að stefnandi starfaði sem sendiherra frá ársbyrjun […] og þekkti því vel að einungis væru greiddar einingar vegna yfirvinnu við störf í ráðuneytinu. Þá nýbreytni í ákvörðun kjararáðs að horfa einnig til mannaforráða við mat á einingum vegna yfirvinnu þekkti stefnandi frá árinu 2017. Þrátt fyrir vitneskju um fyrirkomulagið og grundvöll þess hreyfði stefnandi engum athugasemdum fyrr en með höfðun máls þessa. Jafnvel þó annað kæmi ekki til myndi framangreint tómlæti stefnanda leiða sjálfstætt til sýknu.
Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn hafnað öllum málsástæðum stefnanda í málinu og verður stefndi samkvæmt því sýknaður af kröfum stefnanda.“