

New York Post greinir frá þessu og vísar í niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtust í tímaritinu JAMA Otolaryngology.
Rannsóknin byggði á sjúkraskrám um 2 milljóna einstaklinga á árunum 2005 til 2025, en þar af höfðu 427.555 einstaklingar fengið GLP-1 lyf vegna sykursýki af tegund 2. Samanburðarhópurinn samanstóð hins vegar af 1,6 milljónum sjúklinga sem tóku önnur annarrar línu (e. second line) lyf við sykursýki.
Þegar notkun þessara lyfja var borin saman við aðrar meðferðir reyndust notendur GLP-1 lyfja vera tæplega 30% líklegri til að þróa með sér langvarandi hósta innan fimm ára. Langvarandi hósti er skilgreindur sem hósti sem stendur í átta vikur eða lengur.
Notendur GLP-1 lyfja reyndust einnig oftar greinast með bakflæði í vélinda (GERD), sem getur valdið þurrum hósta.
Í frétt New York Post er þess getið að höfundar rannsóknarinnar leggi áherslu á að niðurstöðurnar sýni aðeins tengsl, en ekki orsakasamhengi. Þeir segja þörf á frekari rannsóknum til að skýra betur hvaða líffræðilegu atriði gætu skýrt aukna áhættu á hósta.