
Mikel Arteta hefur útskýrt hvers vegna hann ákvað að setja Piero Hincapie á bekkinn í 3-1 sigri Arsenal á Bayern Munchen í Meistaradeildinni í gær.
Hincapie, sem er 23 ára, heillaði í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í ensku úrvalsdeildinni þegar Arsenal vann Tottenham 4-1 um síðustu helgi. Þrátt fyrir það byrjaði hann á bekknum gegn Þjóðverjunum, en varnarmaðurinn er á láni frá Bayer Leverkusen en Arsenal hefur rétt á að kaupa hann á 45 milljónir punda næsta sumar.
Arteta, sem er enn að glíma við meiðsli Gabriel, valdi í staðinn að setja Christhian Mosquera í byrjunarliðið. Mosquera kom frá Valencia í sumar fyrir 16,5 milljónir punda.
„Hann var virkilega góður,“ sagði Arteta um Mosquera og útskýrði svo ákvörðun sína.
„Piero kom til baka úr landsliðsverkefni þar sem hann spilaði tvo 90 mínútna leiki. Hann lék síðan nágrannaslaginn, sinn fyrsta byrjunarliðsleik í deildinni og var mjög þreyttur eftir leikinn. Það er frábært að hafa Mosquera sem getur spilað á mörgum stöðum. Hann var frábær með Saliba.“
Arteta stendur nú frammi fyrir stórri ákvörðun fyrir toppslaginn við Chelsea á sunnudag, á hann að byrja Hincapie eða Mosquera.