

Þar gerir Sigurður að umtalsefni yfirvofandi breytingar á lögum um Samkeppniseftirlitið, en drög að frumvarpi þess efnis birtust fyrir skemmstu í Samráðsgátt stjórnvalda.
Í því er meðal annars lagt til að breytingar verði gerðar á rannsóknarheimildum Samkeppniseftirlitsins þannig að það hafi heimild til að ráðast í húsleitir á heimilum fólks. Hingað til hefur heimildin verið einskorðuð við starfsstöðvar fyrirtækja og samtök fyrirtækja.
Sigurður Kári er afar ósáttur við fyrirhugaðar breytingar eins og glögglega kemur í ljós í grein hans.
„Þessi áform eru vond, óþörf og ganga alltof langt. Þau minna um margt á vondar lagareglur sem lögfestar voru í kjölfar hrunsins. Á þeim tíma gengu stjórnvöld út frá því sem forsendu að stjórnendur fyrirtækja væru sakamenn sem efla þyrfti eftirlit með óháð stjórnarskrárvörðum réttindum. Þessi vondu viðhorf í garð atvinnulífsins virðast nú vera að ganga í endurnýjun lífdaga,“ segir hann.
Að hans mati er engin sýnileg ástæða til að útvíkka þessar heimildir þannig að þær nái líka til heimila fólks. „Fyrir utan hversu gróflega slík aðgerð ríkisvalds brýtur gegn stjórnarskrárvarinni friðhelgi fólks þá eru slík úrræði óþörf.“
Sigurður Kári bendir á að allur rekstur og skjalavarsla fyrirtækja sé í dag rafræn.
„Fjarstæðukennt er að stjórnendur og lykilstarfsmenn prenti út mikilvæg skjöl og geymi undir koddanum heima hjá sér í dag, þótt slíkt hafi mögulega tíðkast áður fyrr. Áformin eru því ekki aðeins vond. Þau eru líka tímaskekkja.“
Sigurður Kári segir að hlutverk stjórnvalda sé að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, samkeppnisstöðu þeirra, einfalda regluverk og eyða réttaróvissu, ekki auka hana. Leggur hann fram nokkrar tillögur að reglum sem ráðherra gæti sett í þeim tilgangi.
„Ráðherrann á að leggja til hliðar áform sín um að heimila SKE húsleitir á heimilum fólks. Nær væri að nálgast endurskoðun samkeppnislaga með það að markmiði að skýra réttarstöðu fólks og fyrirtækja og tryggja réttláta málsmeðferð. Lögfesting slíkra reglna myndi ekki einungis auka réttaröryggi. Hún væri líka til þess fallin að draga úr þeirri tortryggni sem óneitanlega ríkir í dag í garð SKE,“ segir Sigurður Kári að lokum í grein sinni.