
Vatíkanið hefur sent frá sér nýtt skjal þar sem varað er eindregið við vaxandi tíðni fjölkærra ástarsambanda. Lögð er þar áhersla á að hjónaband sé ævilangt og stöðugt samband milli karlmanns og konu.
Skjalið er gefið út með samþykki Leó páfa en CNN greinir frá því að þar sé rætt um aukin uppgang fjölkærra sambanda á Vesturlöndum en einnig um fjölkvæni í Afríku en mikið hefur verið rætt meðal kaþólskra biskupa í heimsálfunni um fjölkvæni og á þingum Vatíkansins. Er fjölkvæni í skjalinu lýst sem töluverðri áskorun fyrir kaþólska presta í Afríku.
Skjalið hefur yfirskrift sem þýða má sem: „Eitt hold – Lofsömun einkvænis.“ Þar segir að fjölkvæni, hjúskaparbrot og fjölkæri séu byggð á þeirri blekkingu að styrkleiki sambanda felist í fjölda andlita. Nútíma fólk sé þvert á móti að upplifa rof þegar komi að ást, tíðni skilnaða fari vaxandi, sambönd séu að verða brothættari, minna sé gert úr framhjáhaldi og fjölkæri sé haldið á lofti.
Victor Manuel Fernández kardínáli er yfirmaður þeirrar skrifstofu Vatíkansins sem hefur yfirumsjón með kennisetningum þess og útgáfum þeim tengdum. Hann segir umrætt skjal snúa að því að færa rök fyrir því að best sé að velja ástarsambönd við einn einstakling, því í slíkum samböndum tilheyri viðkomandi aðeins hvort öðru. Skjalið snúist líka um þróun hugmynda kirkjunnar um kynlíf í hjónabandi. Það eigi að snúast um meira en bara barneignir. Kynlíf hjóna snúist ekki síður um einingu þeirra og einingin sé grunnstoð hjónabandsins.