
Alex Freyr Elísson er genginn í raðir Lengjudeildarliðs Njarðvíkur frá Bestu deildarliði Fram.
Alex er 28 ára og hefur mikla reynslu úr efstu og næstefstu deild. Kemur hann inn í öflugt lið Njarðvíkur sem ætlar sér upp í Bestu deildina á næstu leiktíð, eftir að hafa dottið út í umspilinu í ár.
Tilkynning Njarðvíkur
Alex Freyr Elísson gengur til liðs við Njarðvík!
Bakvörðurinn, Alex Freyr Elísson hefur gert samning við Knattspyrnudeild Njarðvíkur um að leika með liðinu út árið 2027, hið minnsta. Alex Freyr sem er fæddur árið 1997 leikur iðulega stöðu hægri bakvarðar, en getur einnig leyst stöðu vinstri bakvarðar.
Alex kemur til okkar frá uppeldisfélagi sínu Fram, en auk Fram hefur Alex leikið fyrir Breiðablik og KA á ferlinum. Alls á Alex 185 meistaraflokksleiki á vegum KSÍ og hefur gert í þeim 22 mörk. 57 leikjanna hafa komið í Bestu deildinni, en 85 þeirra í Lengjudeildinni og því um reynslumikinn leikmann að ræða.
Knattspyrnudeildin býður Alex hjartanlega velkominn til Njarðvíkur og vonast eftir farsælu samstarfi næstu árin!