

Ingvar Smári Birgisson, lögmaður og stjórnarmaður hjá Ríkisútvarpinu, hefur viðrað hugmyndir um að gerð yrði skoðun á hlutleysi RÚV.
„Það hafa verið gerðar kannanir um það, en ég held að allir átti sig á því. Ég er hins vegar að kalla eftir því og er að benda á, til dæmis innan BBC, ég held að þetta eigi sér einhverja hliðstæðu hjá RÚV, að það myndast svona skoðanaleg einsleitni, sem veldur því að menn fjalla, það sem einhver gæti sagt að sé kannski óeðlilega mikið, um tiltekin mál á kostnað annarra. Og þegar það er fjallað um mál, þá eru fréttavinklarnir oft gríðarlega fyrirsjáanlegir. Og þegar þetta gerist yfir eitthvert tímabil, þá ferðu að sjá það sem einhver mætti kalla hlutdrægni. Og það er ekki samsæri eða skipulagning sem liggur þar að baki.“
Ingvar Smári ræðir í Spjallinu með Frosta Logasyni um afhjúpanir á hlutdrægni BBC og ber saman hliðstæður í fjölmiðlum á Íslandi. Nefnir hann að honum finnist RÚV hafa skilað auðu í langan tíma í umfjöllun um atvinnulífið í heild sinni.
„Ég reyndar upplifi það að þeir séu að reyna að gera bót þar á. Maður er að sjá til dæmis að Konráð Guðjónsson og Hörður Ægisson hafa verið núna að mæta í settið, sem er mikil framför frá því sem áður var, en mér finnst verulega hafa vantað upp á einhvern veginn að fá dýpt í umræðuna. Mín tilfinning er sú þó að fólk taki kannski minni gagnrýni óstinnt upp og viðurkenni hana ekki, mín tilfinning er sú að fólk innan RÚV hafi verið meðvitað um ákveðinn halla í sinni umfjöllun og það sé verið að reyna að bæta úr því. Það er mín tilfinning. Ég get ekki ekki sannað það samt.“
Ingvar Smári ræðir einnig um útlendingamál og tíma hans í dómsmálaráðuneytinu þegar hann var aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar.
„Þetta eru ekki bara einhverjar, einhverjar falsfréttir. Í sjálfu sér eru það kannski langfæstu dæmin. Algengustu dæmin eru að það sé rosalega mikið fjallað um tiltekin mál, ákveðinna vinkla á þeim og það er ekki fjallað um aðra vinkla eða bara yfir höfuð ekki fjallað um málin. Eitt dæmi sem er nefnt, sem mér finnst mjög lýsandi fyrir þetta, er að BBC sé með app sem sendir út meldingu, þegar það koma einhverjar mikilvægar fréttir. Það er til dæmis nefnt í því sambandi að þegar kemur að innflytjendamálum, þá senda menn ekki út meldingu og raunar af þeim meldingum sem hafa átt sér stað um fréttir með innflytjendamál, þá er það yfirleitt að það sé illa komið fram við innflytjendur. Mig grunar að á fjölmiðlum, og sérstaklega ríkisfjölmiðlum, þá sé ákveðið svona misræmi milli pólitískra skoðana þeirra sem vinna þarna og svo samfélagsins í heild sinni. Án þess að ég viti eitthvað um það, þá held ég að langstærsti flokkur Bretlands, Reform, eigi sér mjög fáa skoðanabræður innan BBC, svo ég nefni eitthvað dæmi.“
Ingvar Smári segir eðlilegt að RÚV stuðli að lýðræðislegri umræðu.
„Það er eðlilegt að RÚV gegni ákveðnu hlutverki á þessari litlu eyju okkar, að því gefnu að við höfum ríkisútvarpið yfir höfuð, í því að tryggja að það sé virk umræða um mál og svona. Gagnrýni mín snýr að því að útvarpið hafi ekki axlað þá ábyrgð. Það sé einmitt akkúrat kannski þessi inngangur inn í umræðuna sem Gísli Marteinn er að lýsa. Þeir gegna einhverju hlutverki í því að lýðræðisleg umræða eigi sér ekki stað. Það er þvert á móti, eigi að lyfta upp sumum sjónarmiðum og og önnur eigi að mæta afgangs og það er ekki það mat sem þeir eiga að leggjast í. Partur af því af hverju það hefur ekki verið fjallað oft um alveg augljósar fréttir um útlendingamál, ekki bara hjá RÚV, þetta á við um fleiri fjölmiðla, er ákveðin hræðsla manna við að með slíkum flutningi þá verði þetta vatn á myllu svona andlýðræðislegra, popúlískra afla. Maður getur alveg skilið þessar áhyggjur en þarna ert þú farinn að spila mjög hættulegan leik sem blaðamaður.
Ég myndi jafnvel segja þvert á móti að popúlismi er einhvers konar markaðsfræði í pólitík. Það er að reyna að haga seglum þannig að þú segir bara það sem þú þarft að segja til að ná völdum. Ég hef oftast skilið popúlisma þannig. En oft eru þetta flokkar sem hafa ekkert endilega verið að taka augljósan vinsælan slag. Þeir eru að taka slag oft þar sem að þeir hafa þurft að synda á móti straumnum svo uppskorið 10, 20, 30 árum seinna í kosningum þar sem að kjósendur eru ósáttir við að stórir flokkar hafi ekki brugðist við athugasemdum um til dæmis innflytjendamál og annað. Svo er líka annað í þessu að þessir stimplar sem er verið að setja á þessa flokka, popúlískur flokkur og ekki. Ég meina, þú getur borið saman Ítalíu og Danmörku sem dæmi, af hverju er Giorgia Meloni öfgahægrimaður en ekki Mette Frederiksen í Danmörku sem er fyrir Jafnaðarmannaflokk. Frederiksen er örugglega með hörðustu hælisleitendastefnu í Evrópu, allavega í Vestur-Evrópu. Þannig að hún sleppur við slíkan stimpil. Enda er þetta bara fáránlegt. Öll ríki Evrópu hafa verið að breyta sinni löggjöf í þá átt að ná tökum á þessum málaflokkum. Og meira að segja við höfum gert það, þó við höfum gert það í hænuskrefum. En við reyndar virðumst ætla að reyna að tryggja það að við endurtökum næstum því öll sömu mistök og þessi ríki.“