
Í undirbúningi er flutningur Kaffistofu Samhjálpar í húsnæði að Grensásvegi 46 og var um tíma stefnt að flutningnum fyrir áramót. Undirbúningur er í fullum gangi en áformin hafa mætt mikilli andstöðu íbúa í hverfinu, ekki síst húsfélagsins fyrir Grensásveg 44-48. Formaður þess, Geir Rúnar Bragason, sem jafnframt er eigandi Kjötbúðarinnar að Grensásvegi 44, segir íbúa bera ugg í brjósti vegna þessara áforma, þar sem þeir telja umgengni skjólstæðinga Samhjálpar vera óæskilega, til dæmis stórreykingar. Starfsemi af þessu tagi eigi ekki heima í íbúðahverfi þar sem búa margar barnafjölskyldur og grunnskólar eru í nágrenninu.
„Það er mikil hræðsla hjá barnafjölskyldum hér að fá þetta ógæfufólk hingað í hverfið. Svona starfsemi á ekki að fá starfsleyfi í gamalgrónu íbúðahverfi í nálægð við skóla,“ segir Geir í samtali við DV, en hann segist aðspurður hafa sent erindi til borgarinnar vegna áformanna.
Hann fékk þau svör frá deild umbóta og upplýsingamála hjá Reykjavíkurbrog að á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa, þann 18. nóvember, hafi verið samþykkt að grenndarkynna byggingarleyfiumsókn þar sem sótt er um leyfi til að innrétta móttökueldhús og matsal fyrir 100 gesti ásamt tilheyrandi snyrtingum og starfsmannaaðstöðu í einu rými í húsi nr. 46 við Grensásveg. Umsóknin verður grenndarkynnt fyrir íbúum að Grenásvegi 44, 46 og 48 sem og íbúum í Hvammsgerði 1 til 9 og Skálagerði 4 og 6.
Geir fullyrðir í samtali við DV að enginn íbúi eða eigandi í þeim húsum þar sem stendur til að grenndarkynna umsóknina vilji sjá starfsemina í hverfinu.
„Þau tala um að það muni bílar keyra þessa aðila á mili svæða en hvað gerir fólkið milli klukkan tíu og fjórtán þegar það verður hérna úti. Þetta er allt reykingafólk. Það mun standa hérna fyrir utan og reykja og íbúar fá reykinn inn til sín.“
Geir segir íbúa í nágrenninu bera mikinn ugg í brjósti vegna þessara áforma. „Fólk er hrætt og vill bara fara að selja. Og það er enginn að fara að kaupa íbúð þar sem Samhjálp er í næsta nágrenni. Þannig að þetta er bara rýrnun á húsnæði,“ segir Geir og ber þungan hug til þessarra áforma.
Hann segist telja að staðið hafi til að opna aðstöðuna 1. desember en ljóst sé að sú dagsetning standist ekki. Hins vegar sé undirbúningur í fullum gangi. „Þeir hafa verið á fullu að útbúa kaffistofuna og eru búnir að setja upp klósett og brjóta og bramla hérna undanfarnar vikur.“
Allt lítur út fyrir að Samhjálp sé ekki velkomin í hverfið, ef marka má orð Geirs.
Kaffistofa Samhjálpar er nú til bráðabirgða í húsi Fíladelfíu við Hátún en var áður í húsnæði við Borgartún. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Samhjálpar, segir í svari við fyrirspurn DV, að reynslan sýni að nánasta umhverfi stafi ekki hætta af kaffistofunni. Guðrún segir:
„Samhjálp hefur í meira en hálfa öld veitt aðstoð til jaðarsettra einstaklinga sem búa við fátækt og félagslega einangrun. Oft er þetta fólk bæði heimilislaust og að glíma við afleiðingar langvarandi fátæktar, veikinda og/eða fíknivanda.
Það er rétt að Samhjálp hefur gert leigusamning til þriggja ára og óskað eftir leyfi til að innrétta móttökueldhús og matsal ásamt snyrtingum og starfsmannaðstöðu í húsnæði að Gensásvegi 46 til að reka Kaffistofu Samhjálpar.
Staðan í dag er sú að skipulagsfulltrúi hefur vísað umsókn Samhjálpar um rekstur á móttökueldhúsi og matsal í grenndarkynningu.
Í dag rekur Samhjálp annars vegar framleiðslueldhús að Lynghálsi 3 og þjónustuhluta Kaffistofunnar, til bráðabirgða í húsnæði Fíladelfíu. Matur og öll aðföng fara í gegnum Lynghálsinn og allur matur fyrir Kaffistofuna eldaður þar og ekið í þar til gerðum umbúðum þangað sem matarúthlutunin sjálf fer fram. Kaffistofa Samhjálpar er opin alla daga ársins frá kl. 10 – 14. Sex til átta manns eru til staðar á Kaffistofunni á opnunartíma – þrír launaðir starfsmenn auk þriggja til fimm sjálfboðaliða.
Gert er ráð fyrir að eini inngangurinn á staðinn verði um dyr sem vísa út að Grensásveginum og er þar um að ræða stórt bílastæði. Á efri hæð hússins er leiguhúsnæði en aðkoma að því er að aftanverðu og því ekki um að ræða samgang við starfsemi kaffistofunnar. Neyðarútgangurinn sem vísar aftur fyrir húsið verður aðeins neyðarútgangur. Við leggjum mikla áherslu á að tryggja þetta og gerum það m.a. með sérstakri leiðsögn frá SHS og byrgjum þar að auki þá glugga sem vísa út í portið fyrir aftan hús.
Okkar reynsla er sú að nánasta umhverfi Kaffistofu Samhjálpar stafar ekki hætta af starfseminni og skjólstæðingum hennar. Til okkar leitar fólk eftir skjóli og andlegri og líkamlegri næringu. Kaffistofa Samhjálpar er eina úrræði sinnar tegundar sem opið er alla daga ársins þar sem fólk, sem telur sig þurfa á að halda, getur komið og fengið morgunmat og heita máltíð í hádeginu þeim að kostnaðarlausu. Markmiðið er að auka lífsgæði og heilsu í samræmi við 2. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bæta næringu.“