fbpx
Fimmtudagur 20.nóvember 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Taugaveiklun og óskhyggja stjórnarandstöðunnar

Eyjan
Fimmtudaginn 20. nóvember 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að þótt deila megi um þá túlkun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að aðstæður í heiminum nú réttlæti það að láta verndartolla fyrir málmblendi skuli taka til Íslands og Noregs líkt og annarra ríkja utan ESB leiki enginn vafi á því að heimildarákvæðið er til staðar í EES-samningnum og það vorum við Íslendingar sem börðumst fyrir því að hafa það þar.

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við ákvörðuninni eru yfirdrifin og fyrirsjáanleg. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, fer langt yfir strikið, fullyrðir að ESB hafi brotið lög og því séu forsvarsmenn sambandsins „glæpamenn“. Orðið á götunni er að Guðrún sé ekki að eiga gott mót sem formaður Sjálfstæðisflokksins, hún virðist úr jafnvægi, eins og raunar fleiri þingmenn flokksins, og virðist telja það vænlegt til árangurs að vera einfaldlega á móti öllu sem ríkisstjórnin segir og gerir.

Framsóknarmenn eru sjálfum sér líkir og vilja bregðast við verndartollunum með því að fara í tollastríð við ESB og setja tolla á innflutt matvæli. Fjármálaráðherra kallar þetta réttilega „pissa í skóna hagfræði“ og kærir sig ekki um slíkt. Orðið á götunni er að verndartollar á matvælainnflutning til Íslands séu ærnir og ekki á þá bætandi. Nær væri að fækka þeim eða afnema með öllu.

Miðflokkurinn bregst ekki vondum málstað frekar en fyrri daginn og vill hætta að lögfesta reglur tengdar EES-samningnum. Þetta jafngildir því að bakka út úr þeim samningi og myndi hafa mikil og varanleg skaðleg áhrif fyrir allt íslenska hagkerfið, ráðstöfunartekjur heimila og útflutningsgreinar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, talar um ESB sem „hnignunarbandalag“. Orðið á götunni er að Sigmundur Davíð hefði gott af því að kynna sér staðreyndir áður en hann gasprar svona. Staðreyndin er sú að ef horft er fram hjá mannfjöldaþróun hefur hagvöxtur í ESB verið mun hærri á undanförnum árum en hér á landi. Horfurnar fyrir næsta ár eru mun bjartari í ESB en hér á hinu „fullvalda“ Íslandi.

Morgunblaðið slær sama tón og stjórnarandstaðan í leiðara blaðsins í dag. Leiðarljósið er einangrunarhyggja. Fullveldið fellst greinilega í því, að mati blaðsins og stjórnarandstöðunnar, að hafa sem minnst samskipti við útlendinga og halda almenningi og þorra fyrirtækja í spennitreyju ofurvaxta íslensku krónunnar á sama tíma og stærstu fyrirtæki, m.a. öll fyrirtæki íslenskra sægreifa, eru fyrir löngu komin í faðm evrunnar og fjármagna sig á evruvöxtum en ekki íslenskum okurvöxtum. Þannig ná þau forskoti á önnur íslensk fyrirtæki og nýta það til að kaupa upp hvert fyrirtækið á fætur öðru í hinum ýmsu atvinnugreinum.

Þess vegna kætast Mogginn og stjórnarandstaðan við tollaákvörðun ESB. Þess vegna er hamrað á því að ákvörðunin sé „fordæmisgefandi“ og látið að því liggja að senn verði ESB lokað fyrir íslenskum vörum með tollamúrum. Andstæðingar aðildar Íslands að ESB geta ekki leynt áhuga sínum á því að reyna að nýta þetta afmarkaða mál til að byggja upp andúð á ESB og aðild Íslands að ESB.

Orðið á götunni er að áhrifin af verndartollunum verði hverfandi og að einangrunarsinnum verði ekki að ósk sinni. Áfram verður 75% af útflutningi málmblendis til ESB tollfrjálst og tollur einungis settur á restina ef verð er undir viðmiðunarverði ESB. Ekkert tilefni er því til að fara á taugum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Guðni Ómarsson: Gjaldmiðillinn stórt atriði sem stendur í vegi fyrir lægri langtímavöxtum – tvær hliðar á þeim pening

Jón Guðni Ómarsson: Gjaldmiðillinn stórt atriði sem stendur í vegi fyrir lægri langtímavöxtum – tvær hliðar á þeim pening
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn og Jón Þorláksson

Óttar Guðmundsson skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn og Jón Þorláksson
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurður Hólmar skrifar: Ísland sofandi á meðan heimurinn vaknar

Sigurður Hólmar skrifar: Ísland sofandi á meðan heimurinn vaknar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir aðventuna reyna mest á hjónabandið

Segir aðventuna reyna mest á hjónabandið