
Réttarhöld standa yfir á Tenerife yfir konu sem sökuð er um að hafa orðið unnusta sínum að bana sumarið 2023. Lögreglumaður, sem er fyrrverandi mágur ákærðu, segir að hún hafi hringt í sig nokkrum klukkustundum fyrir dauða mannsins og spurt hvaða afleiðingar það hefði ef hún tæki líf einhvers.
Canarian Weekly greinir frá. Lögreglumaðurinn segir að konan hafi virst drukkin, hún hafi verið í miklu uppnámi og talað samhengislaust. Lögreglumaðurinn segist hafa sagt henni að slíkt væri brjálæði og gæti haft í för með sér 20 ára fangelsi fyrir hana. Símtalið átti sér stað nokkrum klukkustundum áður en unnusti konunnar lést. Lögreglumaðurinn sagðist ekki hafa tekið konuna alvarlega þar sem hún hljómaði ekki með sjálfri sér.
Lík mannsins fannst í íbúð konunnar, í Costa del Silencio á Tenerife, þann 5. júlí árið 2023. Á vettvangi var einnig karlmaður, sem konan er sögð hafa átt í nánu sambandi við, og er hann meðákærður í málinu.
Hinn látni er sagður hafa gert konuna háða fíkniefnum og beitt hana miklu ofbeldi, samkvæmt vitnisburði fyrir dómi. Meðal þeirra sem báru vitni er móðir hinnar ákærðu. Hún segir konuna hafa verið komin niður í 50 kg þyngd vegna fíknar sinnar. Þegar hún frétti af dauðsfallinu hafi hún í fyrstu verið fegin að það var ekki dóttir hennar sem dó. Hún segist aldrei hafa verið sátt við að hinn látna sem mannsefni fyrir dóttur hennar og segist sjá eftir því að hafa aldrei tilkynnt ofbeldi hans gegn dóttur hennar.
Nágranni konunnar segist ekki hafa orðið var hávaða daginn sem manninum var ráðinn bani því hún hafi verið upptekin við að þrífa pallinn hjá sér. Hún segir hins vegar að ákærða hafi oft haldið partý og hafi einu sinni sagt henni að hinn látni hefði barið hana illa með priki.
Sjá nánar hér.