

Fastus hefur gengið frá ráðningu Elínar Eddu Angantýsdóttur í stöðu fjármálastjóra fyrirtækisins. Fastus er sölu- og þjónustufyrirtæki á vörum og búnaði fyrir fyrirtæki og fagaðila. Fyrirtækið skiptist í Fastus heilsu, sem þjónustar og sérhæfir sig í vörum og ráðgjöf fyrir heilbrigðisgeirann, og Fastus lausnir, sem sér sjá um þjónustu og ráðgjöf fyrir veitingastaði, hótel og fyrirtæki.
Elín Edda er löggiltur endurskoðandi með meistaragráðu í reikningsskilum og endurskoðun, auk BSc gráðu í viðskiptafræði. Hún kemur til Fastus frá Sýn hf., þar sem hún gegndi starfi forstöðumanns uppgjörs og reikningsskila. Áður starfaði hún hjá KPMG á endurskoðunarsviði og hefur áunnið sér trausta reynslu á sviði fjármála og reikningsskila.
,,Við erum afar ánægð með að hafa ráðið Elínu Eddu sem fjármálastjóra hjá félaginu og bjóðum hana hjartanlega velkomna. Elín Edda er með mikla reynslu og hæfni á sviði fjármála og mun verða öflug viðbót við það sterka teymi starfsfólks sem fyrir er hjá félaginu,“ segir Guðrún Gunnarsdóttir, forstjóri Fastus í tilkynningu.
Höfuðstöðvar Fastus eru að Höfðabakka 7 í Reykjavík.