
Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun embættis landlæknis sem svipti lækni starfsleyfi meðal annars á þeim grundvelli að hann hefði vanrækt skyldur sínar og lagt sjúklinga í hættu en fjöldi kvartana hefur borist embættinu vegna læknisins.
Læknirinn lagði fram kæru til ráðuneytisins í mars síðastliðnum en hann var sviptur starfsleyfinu í desember á síðasta ári. Alma Möller heilbrigðisráðherra vék sæti í málinu vegna fyrri aðkomu sinnar, sem landlæknir, að málum viðkomandi læknis og var Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, settur sem heilbrigðisráðherra í málinu.
Landlæknir hóf sumarið 2024 eftirlitsmál gagnvart lækninum vegna kvartana sem borist höfðu vegna starfshátta hans en niðurstaða embættisins var sú að hann hefði vanrækt skyldur sínar. Um haustið boðaði embætti landlæknis takmörkun á starfsleyfi læknisins og veitti honum frest til að finna vinnuveitanda sem væri tilbúinn að ráða hann með þeim skilyrðum að veita honum stuðning, aðhald og eftirlit auk þess að skuldbinda sig til að senda embættinu upplýsingar um störf hans. Tækist honum það ekki fyrir frestinn myndi það hafa í för með sér sviptingu starfsleyfis. Engin frekari samskipti áttu sér stað milli embættisins og læknisins. Hann fór ekki að þessum skilyrðum og var því sviptur starfsleyfinu.
Í kærunni vísaði læknirinn því á bug að hafa vanrækt skyldur sína sem læknir og hafnaði því að hafa sýnt af sér hirðuleysi í störfum sínum. Vildi hann meina að sviptingin hefði ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög. Vísaði hann enn fremur til þess að lagaskilyrði skorti til þess að endurupptaka mál hans vegna atviks sem átti sér stað á sjúkrahúsinu á Akureyri í september árið 2015 og að svipting lækningaleyfis verði ekki grundvölluð á því atviki enda hafi hann þegar sætt eftirlitsúrræðum hjá embætti landlæknis vegna þess atviks áður og fengið starfsleyfi sitt útgefið að nýju árið 2019 eftir að hafa undirgengist læknismeðferð og endurhæfingu.
Í umsögn landlæknisembættisins kom fram að tilefni eftirlitsmálsins gagnvart lækninum hafi verið niðurstöður landlæknis í þremur kvörtunarmálum sem hafi gefið embættinu ríkt tilefni til að stofna eftirlitsmál. Þá vísaði embætti landlæknis einnig í önnur kvörtunarmál og mál um óvænt atvik sem embættið hefur haft til meðferðar vegna læknisins áður. Í ljósi alls þessa taldi embættið að læknirinn hefði ekki hæfni og færni til að starfa sem ábyrgur læknir.
Vildi embættið meina að málsmeðferð þess hefði verið fyllilega í samræmi við stjórnsýslulög og lagaheimild hafi verið til staðar til að endurupptaka málið sem varðaði atvikið á sjúkrahúsinu á Akureyri 2015.
Embættið sagðist byggja sviptingu starfsleyfisins fyrst og fremst á niðurstöðum tveggja kvörtunarmála sem lauk með álitum landlæknis á árinu 2024. Læknirinn hafi ekki horfst í augu við þann áfellisdóm sem umrædd atvik og kvartanir hefðu verið um störf hans sem læknir. Þá hafi einnig skipt miklu máli að embættið hafi ítrekað haft til meðferðar kvartanir vegna atvika sem upp hafi komið í störfum læknisins og hann hafi ekki bætt ráð sitt í kjölfar fyrri eftirlitsúrræða.
Í niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins segir að embætti landlæknis hafi einkum vísað til tveggja kvartana vegna starfa læknisins, annars vegar frá 2020 og hins vegar 2022. Í fyrra málinu komst landlæknir að þeirri niðurstöðu að læknirinn hefði vanrækt lögboðnar skyldur sínar sem heilbrigðisstarfsmaður við veitingu heilbrigðisþjónustu til handa sjúklings. Í seinna málinu var það niðurstaðan að læknirinn hafi gerst sekur um alvarlega vanrækslu gagnvart sjúklingi sem hafi ógnað öryggi sjúklingsins. Þá hafi skráning læknisins í sjúkraskrá verið ábótavant í báðum tilfellum. Að auki vísaði embætti landlæknis í álit vegna kvörtunar í enduruppteknu máli þann 10. júní 2024, vegna atvika sem gerðust árið 2015, en niðurstaða landlæknis í því máli var einnig að læknirinn hafi gerst sekur um röð mistaka og sýnt af sér vanrækslu við umönnun og meðferð sjúklings í umrætt skipti þegar sjúklingur gekkst undir gallblöðrunám.
Einnig kemur fram að landlæknir hafi áminnt lækninn árið 2022 vegna alvarlegra mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu árið 2014 auk vanrækslu á færslu sjúkraskrár.
Árið 2018 var læknirinn sviptur starfsleyfi til bráðabirgða fyrst og fremst vegna atviks þar sem hann sinnti ekki alvarlega veikum sjúklingi og brást ekki við þegar ástand hans versnaði heldur hélt sig heima á bakvakt. Í ákvörðun sinni um þá sviptingu vísaði embættið líka til niðurstöðu landlæknis um annað óvænt atvik ásamt niðurstöðu landlæknis í fjórum kvörtunarmálum sem enduðu með áliti landlæknis. Í öllum málunum var það niðurstaða landlæknis að læknirinn hefði gerst sekur um mistök eða vanrækslu við veitingu þeirrar heilbrigðisþjónustu sem kvartað var yfir. Var rannsókn enn yfirstandandi vegna atviksins en landlæknir taldi að vegna öryggis sjúklinga yrði að svipta lækninn starfsleyfinu strax. Niðurstaða málsins, árið 2019, var síðan að um alvarlega faglega vanhæfni læknisins hafi verið að ræða í umrætt skipti.
Fram kemur í niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins að í kjölfar starfsleyfisviptingarinnar 2018 hafi þrír sérfræðingar verið fengnir til að meta hæfi læknisins. Niðurstaða þeirra var að líklega hafi mátt rekja mistök læknisins til heilsubrests, sem rekja mætti til svefn- og geðraskana hans undanfarinn áratug. Hann þyrfti viðeigandi meðferð og eftirlit til lengri tíma. Það var einnig mat sérfræðinganna að þegar læknirinn hefði náð heilsu þá væri hann fær um að starfa sem læknir, en að vegna fyrri reynslu ætti hann ekki að sinna vaktþjónustu á minni sjúkrahúsum. Þá ráðlögðu sérfræðingarnir langtímaeftirlit með honum og að læknirinn skyldi skila inn læknisvottorði árlega til staðfestingar á heilsu sinni og hæfni til að starfa sem læknir. Að lokum lögðu sérfræðingarnir til að læknirinn færi í endurmenntun.
Í janúar 2019 fékk læknirinn aftur takmarkað og tímabundið starfsleyfi en í desember það ár varð það ótakmarkað og ótímabundið þar sem læknirinn hefði leitað sér endurmenntunar og meðferðar við heilsubresti sínum.
Niðurstaða ráðuneytisins er mjög ítarleg. Það vísar til þess að eftir að læknirinn fékk starfsleyfið aftur hafi verið kvartað undan honum þrisvar til embættis landlæknis. Tveimur málanna sé lokið og í því fyrra sé niðurstaðan að hann hafi vanrækt lögboðnar skyldur sína en í því seinna að hann hafi gerst sekur um alvarlega vanrækslu sem hafi ógnað öryggi sjúklingsins.
Embætti landlæknis hafi, frá árinu 2016 til dagsins í dag, haft til meðferðar níu kvörtunarmál á hendur lækninum, vegna atvika sem hafi orðið á tímabilinu 2014 til 2022. Einnig hafi embættið haft til meðferðar tvö óvænt atvik vegna aðgerða sem áttu sér stað árin 2017 og 2018. Í öllum þeim málum sem embætti landlæknis hafi lokið rannsókn í hafi niðurstaðan verið sú að læknirinn hafi gert mistök eða gerst sekur um vanrækslu í starfi sínu, þar af a.m.k. í fjögur skipti með alvarlegum hætti.
Telur ráðuneytið að embætti landlæknis hafi haft heimild til að líta til fyrri mála við meðferð nýjustu málanna á hendur honum þar sem svipting starfsleyfis sé stjórnsýsluviðurlög en ekki refsing.
Segir ráðuneytið ljóst að starfshættir læknisins hafi á síðustu 10 árum leitt til nokkurs fjölda mistaka og hann sýnt af sér vanrækslu. Þá hafi læknirinn í flestum tilvikum ekki talið að hann bæri ábyrgð á þeim mistökum eða vanrækslu sem hafi átt sér stað, þrátt fyrir að öll gögn bendi til þess, heldur að aðrir heilbrigðisstarfsmenn eða sjúklingurinn sjálfur beri ábyrgð á þeim. Eftirlit og eftirlitsúrræði landlæknis hafi því engan árangur borið og starfshættir læknisins ekki breyst til hins betra, þrátt fyrir ríkulegt tilefni til þess. Því séu skilyrði fyrir hendi til að svipta lækninn starfsleyfi.
Ákvörðun um starfsleyfissviptingu læknisins stendur því óhögguð.