
Í Sturlungu er að finna Þorgils sögu og Hafliða, þar sem segir frá goðorðsmanninum Hafliða Mássyni, frá Breiðabólsstað í Vesturhópi og deilum hans við Þorgils Oddason. Lenti þeim saman og meiddist Hafliði á hendi. Spruttu af því málaferli á Alþingi og vildi Hafliði bætur fyrir sem skyldu verða þessar:
„Átta tigu hundraða þriggja álna aura vöruvirt fé, lönd í Norðlendingafjórðungi, gull ok silfur, austrænan varning, járnsmíði; ríflegir gripir þeir er eigi tækju minna en kúgildi, geldir hestar, því at einu graður hestur ef mer fylgdi, ekki hross eldra en tólf vetra og eigi yngra en þrevett. Gjalddagi á fénu fyrir búðardurum Hafliða eða færa honum heim en hann sjálfur virða allt féið.“
Mælti þá Skafti Þórarinsson, þessi orð sem fleyg hafa orðið síðan: „Dýr mundi Hafliði allur, ef svo skyldi hver limur.“
Nýlega bárust fréttir af því að lögfræðingar Trumps hefðu sent BBC formlegt bréf þar sem þeir krefjast bóta vegna ætlaðs ærumeiðandi efnis sem stöðin sendi út. Deilan snýst um ávarp Trumps til stuðningsmanna sinna þann 6. janúar 2021, þegar hópur þeirra réðst inn í þinghúsið á Capitol Hill eftir tap hans gegn Joe Biden forsetakosningunum 2020. BBC hafði klippt saman búta úr ræðunni þannig að hin umþrætta setning hljómaði svo: „We’re going to walk down to the Capitol and I’ll be there with you, and we fight. We fight like hell.“
BBC hefur viðurkennt að þessi „klipping“ hafi kannski ekki gefið alveg rétta mynd af hlutunum og dómgreind þeirra sem klipptu hafi ekki verið upp á það besta þann daginn, sem auðvitað er ekki gott fyrir svo virðulegan miðil. Trump telur æru sína svo illa leikna vegna þessa að tjónið nemi að minnsta kosti einum milljarði dollara. Gert er ráð fyrir að málið verði höfðað í Flórída verði greiðslan ekki innt af hendi, þar sem lög um málshöfðunarfresti í málum af þessu tagi í Bretlandi hamla málshöfðun þar í landi.
Trump hefur lengi átt í útistöðum við fjölmiðla og útgefendur, einkum í Bandaríkjunum. Nær þessi saga langt aftur og hófst raunar löngu áður en hann varð forseti. Hér er aðeins pláss til að nefna það helsta frá síðustu misserum.
Á árinu 2020 höfðaði kosningateymi Trump mál gegn New York Times og Washington Post vegna leiðara um ætluð tengsl hans við Rússa. Í þessum málum voru gerðar kröfur um bætur upp á að minnsta kosti 100 milljónir dollara. Báðum málunum var vísað frá árin 2021 og 2023.
Á árinu 2024 stefndi Trump ABC News og fréttamanninum George Stephanopoulos vegna ummæla um að hann hefði sætt ábyrgð að einkarétti fyrir nauðgun og vísað þar til dóms í einkamáli E. Jean Carroll gegn Trump þar sem hann var talinn bera bótaábyrgð gagnvart henni fyrir kynferðislega misnotkun eða áreitni. Málinu lauk með samkomulagi þar sem ABC greiddi Trump 16 milljónir dollara, meðal annars til forsetasafns hans. Slík söfn eru reist fyrrum forsetum Bandaríkjanna til dýrðar, líkt og Rómverjar reistu hofið Aedes Divi Iulii til dýrðar Júlíusi Sesar. Reistu þeir raunar fleiri keisurum slík hof.
Árið 2025 stefndi Trump CBS News og Paramount Global vegna viðtals við Kamölu Harris sem hafi verið ritstýrt þannig að Trump fannst hann smánaður. Í málinu gerði hann upphaflega kröfu um bætur upp á 20 milljarða dollara sem hann síðan gaf 10 milljarða dollara afslátt af. Málinu lauk með greiðslu upp á 16 milljónir dollara til Trumps sem einnig rann í forsetasafns hans. Vert að geta þess að CBS og Paramount viðurkenndu enga þó enga sök í málinu en vildu greinilega losna undan hótunum Trumps og afskiptum hans af störfum þeirra.
Síðar sama ár höfðaði Trump mál gegn Wall Street Journal vegna greinar sem birt var Wall Street Journal (WSJ) grein í júli sl. þar sem fullyrt var að Trump hefði á árinu 2003 sent Jeffrey Epstein afmæliskort sem með kynferðislegum skírskotunum og skissu af nakinni konu. Trump vill fá 10 milljarða dollara í bætur fyrir þetta.
Í september bætti hann svo um betur og stefndi bæði New York Times Company og Penguin Random House fyrir það sem hann kallar „kerfisbundna meiðandi umfjöllun“ og bókina Lucky Loser þar sem Trump fær harla háðulega útreið. Hér telur hann ekki duga minna en 15 milljarða dollara til að bæta honum skaðann.
Loks stendur Trump Media & Technology Group, sem rekur samfélagsmiðilinn Truth Social, í málaferlum við tug fjölmiðla, meðal annars Newsweek og Guardian, vegna frétta sem sögðu fyrirtæki Trumps hafa tapað 73 milljónum dala. Félagið segir frásögnina uppspuna og krefst samsvarandi fjárhæðar í bætur.
Þessi endurteknu málaferli verða tæpast skýrð með því einu að um sé að ræða persónulega viðleitni Trumps til að hreinsa mannorð sitt. Málaferlin líta margir á sem hluta af víðtækari hernaði hans gegn frjálsri fjölmiðlun og tjáningarfrelsinu. Vegna þess hvernig tjáningarfrelsisákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar hefur verið túlkað fyrir dómstólum þar í landi eru þessar málsóknir aftur á móti ekki líklegar til árangurs og umkrafðar bætur raunar fáránlegar. Í besta falli má gera ráð fyrir að einhverjir þessara miðla geri við hann sátt líkt og rakið er að framan, til að freista þess að hann láti þá í friði við störf þeirra, að minnsta kosti um sinn, og baki þeim ekki frekari ama og kostnað en komist verður hjá. Engu að síður má gera ráð fyrir að þessar málsóknir hafi mikil fælingaráhrif á fjölmiðla og séu til þess fallnar að skapa ótta, sem og leiða af sér aukna sjálfsritskoðun þeirra, einkum minni fjölmiðla sem ekki hafa fjárhagslega getu til að standa upp í hárinu forsetanum í dómsölum landsins eða bjóða honum sáttagreiðslur til að róa hann.
Hvað sem líður hættunni sem tjáningar- og fjölmiðlafrelsi stafar af þessum hernaði Trumps gegn frjálsum fjölmiðlum er ljóst að verðið á æru hans nokkuð hátt. Ef þessar fjárhæðir sem nefndar eru að framan eru lagðar saman og heildartalan námunduð niður í næsta milljarð getum við sagt að hún sé 36 milljarðar dollara. Ef þeirri fjárhæð er umbreytt í íslenskar krónur (miðað við gengi dagsins) nemur hún 4,554,720,000,000 íslenskra króna. Fyrir þá sem eru ekki læsir á þessa tölu, þá er hún skrifuð út með bókstöfum svona: fjórar billjónir fimm hundruð fimmtíu og fjórir milljarðar sjö hundruð og tuttugu milljónir króna.
Hér eiga við, að breyttu breytanda, orð Skafta Þórarinssonar: „Dýr mundi Trump allur ef svo skyldi æra hans.“
Höfundur er prófessor í lögfræði við HA.