

Heimir Hallgrímsson vann hug og hjörtu írsku þjóðarinnar í gær með 2-0 sigri liðsins á Portúgal og draumurinn um HM í Bandaríkjunum lifir.
Heimir hefur verið mjög umdeildur í starfi, fyrrum landsliðsmenn og sérfræðingar í fjölmiðlum hafa viljað losna við hann úr starfi. Það er annar tónn í umræðunni í dag.
Heimir er að ganga í gegnum sína fyrstu undankeppni með írska liðið, kröfurnar eru miklar frá þeim sem stýra umræðunni. Sigurinn í gær hefur orðið til þess að margir biðja Heimi afsökunar á því hvernig þeir hafa rætt og ritað um hann.
„FYRIRGEFÐU, HEIMIR — ÉG HÉLT EKKI AÐ ÞAÐ MYNDI GERAST,“ segir á forsíðu Mirror í Írlandi þar sem Eamon Dunphy fyrrum landsliðsmaður er pistlahöfundur.
Dunphy hefur ítrekað gagnrýnt Heimi og það harkalega en nú er annar tónn í kappanum. „Það fyrsta sem ég vil gera er að biðjast afsökunar á gagnrýni minni á Heimi Hallgrímsson – „Tannlækninn“. Ég hef verið miskunnarlaus í gagnrýni á hann síðustu tólf mánuði. En í kvöld tek ég með ánægju upp í mig alla þá sokka sem hægt er að bjóða upp á. Það sem gerðist á Aviva-leikvangnum á fimmtudagskvöld var stórkostlegt,“ skrifar Dunphy.
Hann segir að Heimir hafi með þessum frækna sigri á Cristiano Ronaldo og félögum unnið sig inn í hug og hjörtu írsku þjóðarinnar um ókomna framtíð. „Hvað sem Heimir gerir eftir þetta mun hann ávallt eiga þetta kvöld, kvöldið þegar Írland vann fimmta besta landslið heims, og lagði einn allra fremsta leikmann sögunnar að velli.“
„Heimir á hrós skilið fyrir hugrekki sitt, skipulag og trú á sjálfan sig og leikmenn sína. Þeir voru frábærir.“

Írska liðið hefur ekki riðið feitum hesti í mörg ár en Heimir virðist vera að ná taktinum. Með sigri á Ungverjalandi á sunnudag er liðið komið í umspil um laust sæti á HM.
„Við höfum lifað á siðferðilegum sigrum og heiðarlegum ósigrum í áratugi. En þetta var öðruvísi. Þetta var raunverulegt lið sem vann raunverulegan risa. Ronaldo leit út fyrir að vera venjulegur leikmaður gegn strákunum í grænu sem höfðu fengið nóg“
„Heimir gerði allt rétt. Ég hef gagnrýnt hann harðlega, og ég tek ekkert af því til baka. Leikskipulagið, hugrekkið, ákvarðanirnar, allt small saman. Þetta var ekki heppni, þetta var þjálfun.“
Meira:
Þetta er það sem Ronaldo sagði við Heimi í reiðiskasti í kvöld
Dunphy segir að leikmenn Írlands hafi gert það sem Heimir bað þá um. „Aviva logaði. Fánar, tár, söngvar, þjóðarstolt endurvakið. Við höfum oft heyrt að Írland geti ekki keppt, að við séum ekki nógu tæknileg eða snjöll. Bull. Við höfum alltaf haft hjartað og hugann og í kvöld líka trúna.“
„Heimir gaf þeim frelsið til að spila og þeir svöruðu.“
Hann ítrekar svo afsökunarbeiðni sína til Heimis. „Þetta var kvöld sem minnti okkur á hver við erum. Þegar lokaflautið gall og „The Fields of Athenry“ ómaði í gleði, ekki sorg, þá vissum við það. Við fengum leikinn okkar aftur.“
„Svo já, Heimir, þú átt þetta skilið. Ég biðst afsökunar, og ég er glaður að hafa haft rangt fyrir mér. Og nú? Ungverjaland, verið viðbúin. Þetta Írlandslið leggst ekki niður fyrir neinum.“