
Sigurður Hólmar Jóhannesson framkvæmdastjóri Góðvildar Styrktarsjóðs skrifar:
Í nýrri grein á Forbes, „Cannabis at the Ends of the Earth: Notes on the Northern & Southern Frontiers of Cannabis”, lýsir Robert Hoban því hvernig lönd á jaðri heimsins eru að nýta sér hampinn sem afl til efnahagslegrar uppbyggingar og sjálfbærrar framtíðar. Hann skrifar að plantan sé að blómstra „at the edge of everything” – þar sem hugrekki, nýsköpun og forvitni leiða veginn.
Þetta átti að vera lýsing á Íslandi. En það er hún ekki.
Ísland hélt nýlega eina vönduðustu og metnaðarfyllstu hampráðstefnu sem haldin hefur verið á Norðurslóðum. Þangað komu sérfræðingar, vísindamenn og frumkvöðlar frá öllum heimshornum til að ræða hvernig hampinn getur skapað störf, aukið sjálfbærni og eflt efnahag. En íslensk stjórnvöld? Þau mættu ekki. Enginn ráðherra, enginn alþingismaður, enginn fulltrúi neins ráðuneytis eða stofnana.
Það er kaldhæðnislegt og í raun sorglegt að á sama tíma og lönd eins og Þýskaland, Kanada, Ísrael, Danmörk og jafnvel Chile fjárfesta í rannsóknum, iðnaði og nýtingu hampans, þá kýs Ísland að horfa á tækifærin fara framhjá. Við tölum um grænan hagvöxt og nýsköpun á tyllidögum en þegar raunveruleg tækifæri banka á dyrnar, þá er enginn heima.
Í sömu Forbes-grein bendir hagfræðingurinn Beau Whitney á að ef kannabis yrði lögleitt á Íslandi, væri innanlandsmarkaðurinn metinn á 85,7 milljónir dollara, með næstum 2.000 ný störf og það án þess að taka tillit til kannabis-túrisma. „With 2.3 million tourist visits per year, cannabis-related tourism alone could add $75 million to Iceland’s economy. This isn’t fantasy. It’s math.“
Þetta eru tölur sem ættu að fá hvern einasta ráðherra til að staldra við.
Forbes-greinin undirstrikar að þessi planta sé ekki bara nytjajurt, heldur vettvangur nýrrar hugsunar þar sem „nýsköpun mætir sjálfbærni.” Ísland gæti orðið leiðandi afl í norðri. En svo lengi sem stjórnvöld kjósa að sitja hjá og halda áfram að flokka hamp sem vandamál frekar en lausn, þá verður engin framför.
Við héldum ráðstefnu sem hefði átt að kveikja von og stefnu en hún varð spegilmynd af því hve djúpt sinnuleysi ráðamanna okkar er orðið.
Heimurinn er vaknaður en Ísland sefur enn.